Yfirlýsing um samstarf HSA og HSU á sviði fjarheilbrigðisþjónustu

Forstjórar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) gera með sér svo hljóðandi samstarfssamning.

Miklar framfarir hafa orðið í fjarheilbrigðisþjónustu á undanförnum árum, enda er hún notuð í vaxandi mæli víða um heim. Sérstaklega kemur hún að góðu gagni þar sem erfitt er að sækja heilbrigðisþjónustu með hefðbundnum hætti vegna fjarlægða. Meginmarkmið með fjarheilbrigðisþjónustu er að auka og tryggja aðgengi skjólstæðinga að heilbrigðisþjónustu sem ekki er aðgengileg í heimahéraði, ásamt því að styðja við ráðgjöf og samvinnu heilbrigðisstarfsfólks. Með þessum hætti er unnt að auðvelda aðgengi að hverskyns þjónustu og ráðgjöf án tillits til búsetu, tryggja frekara mat á ástandi sjúklings og meðferð, fá aðstoð við sjúkdómsgreiningar og meðferð þegar þess gerist þörf og draga úr óþægindum og kostnaði vegna ferðalaga, enda oft um langan veg að fara.

Í framangreindum tilgangi hafa forstjórar HSA og HSU ákveðið að hefja samstarf á sviði fjarheilbrigðs-þjónustu.  Samstarfið er tvíþætt og felur í sér:

  1. Nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu. Það felur í sér að nýta tækni til að auðvelda og bæta aðgang fólks að skilvirkri og öruggri grunn heilbrigðisþjónustu.
  2. Samstarf á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu. Það felur í sér að nýta þjónustu sérfræðinga milli stofnana HSA og HSU. Til að byrja með munu stofnanirnar deila samstarfi á sviði líknandi meðferðar og verkjameðferðar og á sviði meðferðar vegna húðsjúkdóma.

Fyrirhugað er að efla enn frekar þetta samstarf á sviði fjarheilbrigðisþjónustu með aðkomu fleiri sérgreina og hópa fagmanna og stofnana.

Tilgangurinn með þessu nú er að tryggja sem besta heilbrigðisþjónustu með þeim fjármunum, mannafla og fagþekkingu sem til staðar er á landsbyggðinni. Þetta er spennandi verkefni og bíður upp á ný tækifæri í útfærslu á heilbrigðisþjónustu.