Yfirlæknisskipti á lyflækningadeild HSU á Selfossi

Sigurður Böðvarsson sérfræðingur í almennum lyflækningum og krabbameinslækningum hefur tekið við stöðu yfirlæknis á lyflækningadeild HSU á Selfossi frá og með 1. október s.l. að telja. Sigurður er frá Búrfelli í Grímsnesi. Hann útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1993 og lauk einnig BS prófi í Ónæmisfræði sama ár. Átta árum síðar eða árið 2001 lauk hann sérnámi í almennum lyflækningum með lyflækningar krabbameina sem undirsérgrein frá University of Wisconsin í Bandaríkjunum.

Sigurður starfaði síðan sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítala á árunum 2001 til 2010. Hann var formaður Læknafélags Reykjavíkur 2006 – 2010 og sat í stjórn Læknafélags Íslands frá 2004 – 2010. Hann lauk meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2009. Sigurður starfaði sem sérfræðingur í krabbameinslækningum í Wisconsin i Bandaríkjunum frá árinu 2010 þar til að hann hóf störf við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 1. desember 2018. Hann er giftur Guðrúnu Bragadóttur hjúkrunarfræðingi.

 

Björn Magnússon fráfarandi yfirlæknir er sérfræðingur í lungnalækningum og hefur langa og farsæla starfsreynslu. Frá 1. júlí 2013 hefur hann starfað í fullu starfi sem sérfræðingur og yfirlæknir á lyflækningadeild HSU á Selfossi. Björn útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1974 og stundaði framhaldsnám í lyflækningum við Bronx Veterans Hospital og Mt. Sinai Hospital í New York og síðan í lungnalækningum við New York  University Medical Center. Björn veitti eftir heimkomu að loknu sérnámi  lungnaendurhæfingarteymi Reykjalundar  forstöðu um 15 ára skeið og var yfirlæknir Endurhæfingarstöðvar hjarta-og lungnasjúklinga í Reykjavík um 3 ára skeið auk þess að sinna sérfræðimótttöku á Læknasetrinu. Seinna var hann  lyflæknir og forstöðulæknir Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað í 16 ár þar til hann hóf störf hjá HSU.

Björn hefur átt drjúgan þátt í að efla þjónustu á sviði lyflækninga hjá HSU bæði á sjúkra – og göngudeild og hvað þá síðarnefndu varðar verið sporgöngumaður í að koma á laggirnar meðferð með líftækni – og krabbameinslyfjum auk blóðskilunar fyrir nýrnasjúklinga á Suðurlandi.

Björn sem er 72 ára gamall hefur ákveðið að draga í land hvað starfsframlag varðar og láta af hendi yfirlækniskeflið. en hann mun áfram þjónusta skjólstæðinga HSU í hálfu starfi. HSU vill á þessum tímapunkti þakka Birni kærlega fyrir hans framlag til heilsufars  Sunnlendinga  hingað til og framvegis. Björn er giftur Önnu Sigurveigu Ólafsdóttur. sem lét af störfum sem hjúkrunarfræðingur hjá HSU fyrsta október sl.

 

HSU óskar nýjum yfirlækni velfarnaðar í starfi.