Yfir 60 bangsar og dúkkur fengu aðhlynningu á HSu um síðastliðna helgi

Það voru glöð börn sem yfirgáfu Bangsaspítala HSu á Selfossi laugardaginn 10. nóv.  með læknaða bangsa eða dúkkur.

Til öryggis var tekin „röntgenmynd“ af böngsunum og þar sem tæknin er orðin svo góð, var hægt að skoða myndirnar strax að lokinni myndatöku.  Börnin voru mjög áhugasöm um að skoða röntgenmyndirnar með lækninum, enda gat leynst brot í beini og eins gott að það uppgötvaðist sem fyrst, svo hægt væri að veita viðeigandi meðhöndlun.   

Sumir bangsanna höfðu grátið soldið þegar þeir meiddu sig, en höfðu að sjálfsögðu verið huggaðir af eigendunum.  Sumum var illt í maganum og öðrum í höfði.  Tumi tígur, hafði t.d. hoppað of mikið á skottinu og dottið af þeim orsökum á hausinn og fengið gat.  Það var að sjálsögðu lagað. 

En allir fóru bangsarnir glaðir heim, flestir með plástra eða enn stærri umbúðir og einhverjir höfðu þurft sprautu, en öllum var batnað.  Börnin fengu lýsistöflur og góðar ráðleggingar um tannburstun, góðann svefn og fleira, bæði fyrir sig og bangsann.

Aðsókn var góð, þrátt fyrir leiðindarok og var nóg að gera hjá læknanemunum sem tóku á móti börnunum með bangsana eða dúkkurnar sínar.  Ánægjulegt og mjög gott framtak hjá Lýðheilsufélagi læknanema.  Vonandi komið til með verða árleg heimsókn.