Yfir 150 slasaðir sunnlenskir bangsar og einn kom með sjúkrabíl

IMG_0106Það var mikið um að vera á Bangsaspítalanum á Selfossi á laugardaginn.  Yfir 150 slasaðir sunnlenskir bangsar eða dúkkur komu á bangsaspítalann á Selfossi. Bangsarnir og eigendur þeirra streymdu að og svo mikið var að gera í upphafi, að opna þurfti í skyndi bráðabirgða læknisstöðvar í biðstofunni.  Margir voru beinbrotnir eftir fall úr rúmum eða rólum og einhverjir höfðu eðlilega grátið eitthvað.

 

Mjög ítarleg læknisrannsókn var gerð á böngsunum, enda gat leynst brotið bein og nauðsynlegt að það uppgötvaðist sem fyrst, svo hægt væri að veita viðeigandi meðhöndlun. Einhverjir bangsar voru það slæmir að það þurfti að sprauta þá, en sem betur fer dugði plástur og umbúðir fyrir flesta.

 

Það leiðinlega óhapp varð þennan dag að hann Lúlli löggubangsi hafði farið út að hjóla hjálmlaus og hann datt af hjóli sínu og fékk kúlu og það blæddi þó nokkuð.  Hann var því mikið slasaður og kom í lögreglufylgd á HSu í sjúkrabíl og var fluttur inn í sjúkrarúmi af sjúkraflutningamönnum.  

Eftir að læknarnir höfðu gert að sárum Lúlla, sagt honum frá mikilvægi þess að vera alltaf með hjálm, fór hann aftur heim.  En fyrst leyfði hann öllum krökkum að koma að skoða sjúkrabílinn og lögreglubílinn sem voru fyrir utan sjúkrahúsið með blikkandi blá ljós.

 

Það fóru allir ánægðir og sáttir heim eftir þessa heimsókn á Bangsaspítalann og sýnir fjöldinn að mikil þörf er á þessu, enda um þrefalda aukningu frá því í fyrra.  Gott framtak hjá Lýðheilsufélagi læknanema.

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Videó1

Videó2