Vegna villandi fréttaflutnings í ákveðnum fjölmiðlum í dag um óeðlilegar flettingar í sjúkraskrá vekur Heilbrigðisstofnun Suðurlands ( HSu ) athygli á eftirfarandi ákvörðunarorðum Persónuverndar :
Ákvörðunarorð
Ekki er til skrifleg lýsing á öryggiskerfi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og atvikaskráning (loggun) hefur ekki verið með þeim hætti að unnt hafi verið að veita sjúklingi fullnægjandi skýringu á uppflettingu í sjúkraskrá hans.
Lagt er fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands að yfirfara atvikaskráningu sína m.t.t. til réttar sjúklinga samkvæmt lögum nr. 77/2000, sbr. 14. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Þá skal stofnunin setja reglur um a) úthlutun aðgangsheimilda, b) reglubundna endurnýjun aðgangsorða og c) innra eftirlit er nái til allra heilbrigðisstarfsmanna á stofnuninni.
Hún skal fyrir 15. ágúst 2012 afhenda Persónuvernd skriflega lýsingu á öryggiskerfi sínu, sbr. 3. gr. reglna nr. 299/2001, þar sem þessar reglur komi fram.
Í framangreindum ákvörðunarorðum Persónuverndar kemur ekkert fram um, að um óeðlilegar flettingar í sjúkraskrám hafi verið að ræða. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að úttekt á öryggismálum varðandi tölvu- og upplýsingakerfi stofnunarinnar í samvinnu við Velferðarráðuneytið. Sú vinna er á lokastigi og mun Persónuvernd verða gerð grein fyrir þeim málum innan tilskilins tíma.