Viðráðanlegir áhættuþættir kransæðasjúkdóma

Birna GestsdottirHægt er að skipta áhættuþáttum fyrir hjartaáfalli í viðráðanlega og óviðráðanlega áhættuþætti. Viðráðanlegir áhættuþættir tengjast lífstíl okkar eins og nikótínneyslu, háum blóðfitum, háþrýstingi, sykursýki, offitu, hreyfingarleysi, áfengisneyslu og streitu. Óviðráðanlegir áhættuþættir eru erfðir, kyn og aldur.

Hér verður stiklað á helstu viðráðanlegu áhættuþáttunum.

Sykursýki er langvinnur efnaskipta sjúkdómur sem einkennist af of miklu sykurmagni í blóði.   Of hár sykur í blóði veldur því að innsta lag æðaveggjanna verður fyrir skaða og eða vanvirkni, þessi áverki á æðavegginn eykur líkur á æðakölkun með því að fita á greiðari leið undir æðavegginn og veldur þrengingum.

Nikótínið fer inn í blóðrásina í gegnum lungu og slímhúð, það tekur um 10 sekúntur að ná til heilans og valda vellíðan. Við það virkjar nikótínið blóðstorkukerfi og sympatíska kerfi líkamans. Sympatíska kerfið býr líkamann undir „Fight and flight“ viðbrögð eins og við séum að lenda í lífsháska m.a með því að auka hjartslátt, lifur losar meira sykurmagn út í blóðið, auka streituhormón í blóðinu, lækka „góða“ kólesterólið í blóði og hækka blóðþrýsting. Blóðstorkukerfið eykur líkur á blóðtöppum. Allir þessir þættir hafa slæm áhrif á æðaþelið og auka líkur á æðakölkun, einstaklingur sem verður fyrir óbeinum reykingum eykur líkur á þessum sympatísku viðbrögðum.

Of mikil líkamsfita hefur áhrif á efnaskipti líkamans þannig að það veitir viðnám við insulíni sem eykur hættu á sykursýki. Offita getur valdið blóðþrýstingshækkun, aukið bólgusvörun í líkamanum og hækkað blóðfitu, sérstaklega slæma kólesterólið.

Regluleg hreyfing er verndandi þáttur gegn hjartaáfalli. Hún lækkar blóðþrýsting, dregur úr hjartslætti, eykur þennslugetu kransæða, brennir blóðsykri, minnkar heildar kólesteról í blóði en eykur „góða“ kólesterólið og eykur getu líkamans til að leysa upp blóðkekki sem geta annars myndað blóðtappa.

Streita hækkar blóðþrýsting og púls, dregur úr næmi insúliíns þannig að sykursýki getur versnað og samloðun blóðflagna getur aukist sem getur valdið myndun blóðtappa. Þetta getur leitt til þess að skaði verður á æðaþeli þannig að blóðfitur eiga greiðari leið undir æðaþelið og mynda þrengingar.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Birna Gestsdóttir

Hjúkrunarfræðingur á sjúkradeild HSU á Selfossi