Viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu æfð á Suðurlandi

Unnið hefur verið að gerð viðbragðsáætlunar vegna heimsfaraldurs inflúensu frá því haustið 2005. Þann 10. febr.´06 ákvað ríkisstjórnin að fela ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni að skilgreina verkefni og hlutverk samstarfsaðila viðbúnaðar við heimsfaraldri sem byggja á opinberum sóttvarnaráðstöfunum og almannavarnastarfi. Stýrihópur, verkefnastjórn og verkefnahópar hafa unnið að verkefninu undanfarið rúmt ár.

Markmið viðbúnaðar – og viðbraðgsáætlunar eru:
að hindra að faraldur berist til landsins sé þess kostur
að draga úr útbreiðslu hans innan landsins eftir því sem unnt er
að lækna og líkna sjúkum
að vernda þá sem greina og stunda sjúka
að viðhalda lífsnauðsynlegri starfsemi í landinu.


Mánudaginn 10. des.sl. fór fram æfing á Suðurlandi. Æfð voru viðbrögð við þessum hugsanlega heimsfaraldri. Þeir sem tóku þátt í æfingunni eru sammála um að hennar hafi verið þörf og nú hefst vinna þar sem fara þarf yfir niðurstöður æfinganna og fullvinna viðbraðgsáætlun fyrir Suðurlandi.


Á meðfylgjandi mynd eru: Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður Selfossi, Óskar S. Reykdalsson, lækningaforstjóri HSu og sóttvarnalæknir Suðurlandsumdæmis, Marianne B. Nielsen, heilsugæslulæknir Selfossi og Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, Selfossi.

Á eystra svæðinu þ.e. í Rangárvalla- og Skaftafellssýslu fór einnig fram samskonar æfing og þeir sem tóku þátt í henni voru Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn, Hvolsvelli, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri, Hvolsvelli og Þórir Björn Kolbeinsson heilsugæslulæknir á Hellu.