Vetrarælupest

Á undanförnum vikum hefur töluvert borið á ælupest sem er að ganga, svokölluð noro veira, en noro veiran er veira sem tilheyrir hóp veira af Caliciveiru tegund.  Þessi veira getur eingöngu valdið einkennum í mönnum, dýr geta ekki veikst eða borið smit.  Sjúkdómurinn er mjög smitandi, einn dropi af ælu, hægðasnerting eða öndunarsmit af mjög litlum toga getur smitað einstaklinga sem eru í návígi við þann sjúka.  Smitandi einstaklingar dreifa smitinu í um 2 sólarhringa og stundum lengur.  Vörn gegn sjúkdómnum eftir eigin sýkingu er stutt og algengt er að fólk veikist aftur af sama sjúkdómi, jafnvel ár eftir ár.  Caliciveirur eru algengasta orsök uppkasta og niðurgangspestar á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.  Bæði sjúklingar og starfsmenn veikjast og oft á tíðum þarf að loka heilu deildunum til að verja sjúklinga smiti.  Sjúklingar eru ekki fluttir á milli sjúkradeilda við þessar aðstæður og mikilvægt er að hafa sem minnst umgengin við aðra meðan á veikindum stendur. 

 

 

Smit getur komið við ýmsar aðstæður, djúpfryst ber, ostrur og ýmsar matvörur sem smitast þar sem veikur einstaklingur hefur borið smit í.  Einstaka einstaklingar, eða allt upp í 20 þúsund, hafa erfðafræðilegar varnir gegn sjúkdómnum og veikjast mun síður en aðrir.  Sjúkdómurinn kemur oftast fyrir í nóvember til og með apríl en langalgengast í janúar og febrúar og þess vegna er þetta kallað í ýmsum tungumálum vetrarælupestin.  Veiran greinist oft í hægðum einstaklinga sem veikst hafa í margar vikur eftir einkenni.  Mörgum sinnum hefur þurft að loka sjúkradeildum á síðustu árum, verstu staðirnir hafa verið í Skandinavíu t.d. á Karolínska sjúkrahúsinu árið 2009.  Einnig slæm tímabil í Ástralíu og Nýja Sjálandi. 

 

 

Helstu einkenni: snögg veikindi, uppköst, mikil ógleði, niðurgangur,kviðverkir, vöðvaverkir, höfuðverkur og hiti.  Mikilvægt er að sjúkdómurinn læknast af sjálfu sér á fáum dögum. 

 

Greining er oftast gerð bara við skoðun læknis en hægt er að taka rannsóknir á svokallaðri PCR aðferð en ekki hægt að rækta veiruna.  Tímabil frá smiti þar til að einstaklingur veikist eru 12-48 klst. og helstu vandamál við greiningu sjúkdómsins er mismunagreining við aðra sambærilega vírusorsakaða sjúkdóma en stundum eru vandamálin verri eins og alvarleg blóðeitrun eða jafnvel heilahimnubólga sem getur líkst þessu.  Veikindi af völdum salmonellu, campylobacter eða rota- eða adenoveira geta líkst þessu líka. 

 

Ekki er hægt að fyrirbyggja sjúkdóminn með bólusetningu en mikilvægt er að hafa góðan handþvott, við umönnun slíkra sjúklinga en ekki síður á heimili þess sem verið er að sinna.  Veikir einstaklingar eiga að sjálfsögðu alls ekki að vera í matargerð fyrir aðra.

 

 

Meðferð: Engin sérhæfð meðferð er til en rétt er að nota venjulegar aðferðir við aðferðir við ælupest svo sem að drekka smá skammt af vatni með jöfnu millibili, oft rétt að hafa sykur og saltskammt vatnsins í lagi og er hægt að fá í apótekinu sérseldar vörur til þessa.  Þá er einnig hægt að blanda einum lítra af vatni með 3 matskeiðum af sykri eða 2 matskeiðum af þrúgusykri og ½ teskeið af salti. Gefa lítinn vökva í einu.

 

 

Óskar Reykdalsson, sóttvarnarlæknir í suðurumdæmi.