Vestmannaeyjar. Tæki endurnýjuð og húsakostur lagfærður

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að margvíslegum breytingum á starfsstöð Heilbrigisstofnunnar Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Ný móttaka opnaði 21. maí

Meðal þess sem gert hefur verið eru gagngerðar endurbætur í gangi á heilsugæslunni. Þar er nú að opna ný móttaka, en núverandi inngangi verður í kjölfarið lokað. Þessi breyting tók einmitt gildi 21. maí sl.

Þá má nefna endurnýjun á innganginum á jarðhæðinni og breytt og bætt aðgengi fyrir sjúkraflutninga. Lyfta verður opnanleg í norður og hægt verður að fara með sjúkrabörur beint inn í lyftuna frá sjúkrabifreið.  Mikilvægt er að leggja alls ekki bílum fyrir innganginn kjallaramegin.

Einnig eru endurbætur fyrirhugaðar á bílastæðum og þeim fjölgað. Jafnframt verða sett upp bílastæði fyrir rafmagnsbíla.

Í húsinu sjálfu verður sett upp öryggiskerfi með aðgangsstýringu á allar hæðir. Þá hefur afkastageta eldhússins verið aukin. Endurnýjun hefur einnig verið á fæðingaraðstöðu á þriðju hæð, en þeim framkvæmdum er að ljúka og þá verður bjöllukerfi á sjúkradeildinni endurnýjað.

Mörg tæki endurnýjuð

Varðandi tækjaendurnýjun þá er margt spennandi í gangi. HSU hefur fest kaup á nýjum rönten myndgreiningarbúnaði af gerðinni Philips Digital Diagnost C90 high perfomance.  Þessi tækjabúnður er starfrænt röntgentæki af fullkomnustu gerð sem mun hafa jákvæð áhrif bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga. Það er óhætt að segja að endunýjunin hafi verið löngu tímabær enda gamla tækið búið að skila sínu og komið vel til ára sinna. Nýja tækið er með fjarstýrðum búnaði þannig að nú þarf ekki lengur að hreyfa loftlampa með handafli auk þess sem aðgengið að tækinu er þægilegra fyrir sjúklinga.

Í kjölfarið á endurnýjun tækjabúnaðarins voru einnig gerðar miklar breytingar á húsnæðinu sem hafa heppnast afar vel.  

Tækjabúnaður á rannsóknarstofunni hefur verið endurnýjaður en unnið er að því að koma upp rafrænum tengingum milli LSH og HSU í Vestmannaeyjum. Einnig hafa margir sérfræðingar aðgengi að þessu kerfi og geta þá skoðað niðurstöður blóðrannsókna sem gerðar eru í Vestmannaeyjum.

Díana segir þetta gríðarlega mikilvægan áfanga hjá stofnuninni og afar spennandi að sjá þetta verkefni verða að veruleika. ,,Með þessum breytingum erum við að tryggja öryggi í umsýslu á rannsóknarniðurstöðum,”

Í febrúar sl. var fjárfest í hjartaómtæki frá GE af gerðinni Vivid S60. Segir forstjórinn að á undanförnum árum hafi átt sér stað töluverð tæknileg þróun í hönnun hjartaómtækja og var þessi endurnýjun því kærkomin og bætir til muna gæði hjartaómrannsókna frá því sem áður var.

Stórkostlegt verkefni verður að veruleika fyrir tilstilli Lionsklúbbsins í Vestmannaeyjum

,,Þá er gaman að segja frá því að fjaraugnlækningar eru að verða að veruleika í Vestmannaeyjum. HSU er að undirbúa þá þjónustu í samstarfi við Sjónlag í Reykjavík.

Verkefnið er tilraunaverkefni í nútímavæddri augnlæknisþjónustu og er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Verkefnið hlaut 10 milljóna króna nýsköpunarstyrk á vegum Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Heilbrigðisráðuneytisins og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en ráðuneytin stóðu fyrir fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu á síðasta ári.

Þetta stórkostlega verkefni væri ekki af fara af stað nema fyrir tilkomu og elju Lionsklúbbsins í Vestmannaeyjum sem stóð fyrir söfnun að tækjabúnaði fyrir alls 25 milljónir króna og færum við þeim miklar þakkir fyrir þetta dýrmæta framlag.” segir Díana og bætir við að tækjabúnaðurinn komi til Eyja í júní, „Í ágúst mun fara fram menntun og þjálfun starfsmanna þannig að hægt verði að veita þjónustuna frá Eyjum” segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

 

Af öllu ofantöldu má sjá að mörg framfaraskref hafa verið stigin á stofnuninni undanfarna mánuði og enn á eftir að taka nokkur skref áfram á komandi mánuðum. Myndir frá framkvæmdunum og breytingunum má sjá hér að neðan og voru fengnar að láni hjá Eyjar.net ásamt fréttinni.