Vertu í takt

SolrunÖll erum við leiðtogar á einn eða annan hátt í okkar lífi og daglega höfum við samskipti, tökum ákvarðanir og framkvæmum hluti sem hafa áhrif á aðra. Samskipti okkar hafa mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar og annarra. Sjálfsmynd er sú sýn sem við höfum af okkur sjálfum, sem leiðir okkur í gegnum daglegt líf og hefur áhrif á allt sem við gerum og segjum, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki. Hún hefur áhrif á væntingar, upplifanir og mótast af þeirri þekkingu og reynslu sem við öðlumst. Jákvæð, sterk sjálfsmynd er mikilvæg öllum. Eftirfarandi eiginleikar í samskiptum eru til styrkingar og byggja á þremum grunnþáttum þjónandi forystu.

Einlægur áhugi á velferð og hugmyndum annarra, sýndu einlægan áhuga og vertu meðvitaður um áhrif eigin athafna og orða. Vertu opinn, hlustaðu og undirbúðu þig og aðra. Félagsleg færni er að skynja og skilja umhverfi sitt, sýna virkan áhuga á hugmyndum og aðstæðum annarra, með samvinnu og hópefli. Þannig nærð þú betri tengingu, eflir samstöðu, vekur áhuga og gleði.

Sjálfsþekking, að þekkja styrkleika og veikleika sína, efla eigin færni og innri styrk. Nýttu þér sjálfstyrkingu, horfðu í eigin barm. Sýndu tillitsemi, hvatningu og áhuga á velferð annarra, en sýndu samt festu. Vertu jákvæður, uppbyggjandi, góð fyrirmynd, ekki yfir aðra hafinn, vertu jafningi. Sýndu virðingu, yfirvegun. Færni þín byggist á þeirri sýn sem þú mótar með sjálfum þér. Hvati einstaklings í áhugavekjandi og gefandi samskiptum skilar honum alla leið. Lærðu að taka gagnrýni, sýndu öryggi en áttaðu þig jafnframt á að þú veist ekki allt, vertu í takt.

Hafðu framtíðarsýn, nýttu reynslu þína og annarra, byggðu traust. Sýndu sjálfstæði, bjartsýni, þolinmæði, þjónustulund og lífsgleði, á hvaða aldri sem þú ert. Ekki bera þig alltaf saman við aðra, ekki horfa á óraunhæfar fyrirmyndir, gerviveröld tæknibrellna, hættu því. Breyttu þínum áherslum í átt að bættri líðan og heilsu. Finndu þér heilbrigð markmið sem hafa styrkjandi áhrif. Nýttu tilfinningu þín og hæfileika, sameiginleg hugsjón glæði vonir og drauma, sameinar. Horfðu til baka til að nýta þér þá þekkingu sem þú hefur, í því sem framundan er.

Vertu þú sjálfur.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sólrún Auðbertsdóttir

Hjúkrunarstjóri, heilsugæslu HSU í Þorlákshöfn