VERA – nýjung í tímabókunum og lyfjaendurnýjunum á HSU

vera2Veruhnappurhefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands opnað fyrir heilsuvefinn VERU (heilsuvera.is).

 

 

VERA er samvinnuverkefni Embætti landlæknis, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og TM Software og er öruggt vefsvæði þar sem notandi getur átt í samskiptum við

heilbrigðisþjónustuna og nálgast gögn sem skráð eru um hann í heilbrigðiskerfið á Íslandi. Krafist er rafrænna skilríkja til að tengjast inn á www.heilsuvera.is sem nauðsynlegt er til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga.

Í VERU er m.a. hægt að skrá afstöðu sína til líffæragjafar sem skráist þá inn í miðlægan gagnagrunn heilbrigðisþjónustunnar hérlendis.

Þeir notkunarmöguleikar sem teknir hafa verið í notkun á heilsugæslustöðvum HSU og fleiri heilbrigðisstofnunum, eru lyfjaendurnýjanir og tímabókanir.

Opnað hefur verið fyrir VERU á heilsugæslustöðvum HSU í Þorlákshöfn, Laugarási, Rangárþingi, Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Þann 19. nóvember n.k. verður einnig opnað fyrir vefinn á heilsugæslustöðvunum í Vestmannaeyjum, Hveragerði og á Selfossi.

Rafrænar tímabókanir og lyfjaendurnýjanir

VERA virkar jafnt í heimilistölvunni, spjaldtölvunni sem snjallsímanum.

Vefurinn veitir notendum möguleika á að bóka tíma hjá heimilislækni á sinni heilsugæslustöð. Eftir sem áður er hægt að bóka læknatíma símleiðis hjá móttökuriturum. Unnið er að því að einnig verði hægt að bóka tíma hjá hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum á þennan hátt.

Í VERU geta notendur einnig séð yfirlit yfir lyfseðla sem þeir eiga í Lyfseðlaskrá landlæknis og þar geta þeir óskað eftir endurnýjun á lyfjunum sínum en eingöngu á þeim lyfjum sem þeir eru þegar á. Þetta er mun öruggari leið þar sem sjúklingur notar rafræn skilríki til að skrá sig inn í VERU og beiðnin kemur inn í rafræna sjúkraskrá í stað þess að berast í netfang stofnunarinnar. Lyfjaendurnýjanir í gegnum tölvupóst á vefsíðu stofnunarinnar verða því lagðar af eftir mánaðar aðlögunartíma. Eftir sem áður er hægt að endurnýja lyf símleiðis hjá læknariturum.

Yfirlit yfir bólusetningar barna

Í VERU geta foreldrar og forráðamenn einnig fylgst með lyfseðlum, tímabókunum og bólusetningum barna sinna að 15 ára aldri og bókað tíma fyrir þau hjá heimilislækni.

Starfsmenn HSU vilja hvetja alla til að kynna sér möguleika VERU á www.heilsuvera.is

Sjá má kynningarmyndbönd um vefinn.

Hér er einnig aðgengilegur bæklingur um heilsuveru.