Vel heppnuð stórslysaæfing

822. apríl  2016

Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók í gær þátt í hópslysaæfingu við gömlu brúnna yfir Þjórsá. Þar verða æfð viðbrögð við slysi þar sem strætó lenti í árekstri við 4 fólksbíla og alls slösuðust 64 manns. Tilgangur æfingarinnar var að virkja samstarf allra viðbragðsaðila á Suðurlandi með æfingu í samvinnu hjá aðgerðarstjórn almannavarna á Suðurlandi. Æfingin fór fram á sumardaginn fyrsta og voru aðilar einstaklega heppnir með gott veður sem auðveldaði mjög æfinguna þar sem vel á annað hundrað einstaklingar voru beinir þátttakendur.

 

Æfingin er kærkomin liður í að æfa viðbragð við mögulegum stórslysum og gefur öllum aðilum einstakt  tækifæri til að fara yfir alla ferla til að tryggja sem bestan undirbúning fyrir raunaðstæður.  Það var mál allra aðila að æfingin hefði í heildina tekist einstaklega vel. Í ljós kom að samstarf allra aðila skilaði því að hægt var að bregðast við stórslysi af þessari stærðargráðu og stjórnkerfi almannavarna virkaði mjög vel. Ýmislegt kom þó í ljós sem má betur fara og við fögnum því að hafa fengið gott tækifæri til að vinna úr því. Til að nýta lærdóminn sem best af æfingunni munu stjórnendur á HSU vinna hratt og vel úr öllum ábendingum eftir æfinguna.  Þátttaka HSU varð til þessa að nú er hægt að endurskoða viðbragðsáætlun stofnunarinnar til að gera hæft starfsfólk enn betur í stakk búið til að bregðast við stórslysi sem þessu. Í framhaldi af því verður starfsmönnum boðið á námskeið og útfærð verður sérstök hópslysaæfing hjá HSU sem halda þarf sérsakalega fyrir starfsfólk.

 

Ég vil fyrir hönd HSU þakka samstarfsaðilum fyrir vel heppnaða æfingu og ekki síst vil ég þakka alveg sérstklega öllu starfsfólki HSU sem kom á staðinn og tók virkan þátt í æfingunni.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.