Vegferð

Í marsmánuði árið 2012 fóru 440 ökutæki um Reynisfjall, síðastliðinn marsmánuð fóru 2.364 bílar af öllum stærðum og gerðum um sama veg. Á þessum 6 árum hafa engar breytingar verið gerðar á veginum. Hann er jafn mjór, vegaxlalaus að mestu og sami stóri skurðurinn er meðfram honum á kafla. Helsta breytingin er sú að holur í akbrautinni eru fleiri, dýpri og skarpari. Svipaða sögu er að segja af þjóðvegi númer 1 hvort sem er austan eða vestan Reynisfjalls. Akreinar eru ekki aðskildar með afgerandi hætti, einbreiðar brýr eru enn margar og brestir mannvirkjanna eru þannig að verulega þarf í þá að berja.

Ökumönnum verður á í umferðinni og mistökin sem við gerum eru fjölbreytt og umfram hugmyndaflug og spár. Það skiptir miklu að vegakerfið styðji vegfarendur þannig að geri menn mistök hjálpi hönnunin, svo sem kostur er, til við að minnka skaða. Það hefur áhrif á afdrif hvað tekur við ef fólk lendir utan vegar.

Slysin gera ekki boð á undan sér segir gamalt máltæki. Vegfarendur dagsins í dag verða þó varir við mörg slysaboð á leið sinni um landið. Heilbrigðismál eru víðfeðmur málaflokkur með marga snertifleti. Umferðarmannvirki og öryggi í umferðinni eru sannarlega heilbrigðismál. Á þetta erum við reglulega minnt með fréttum af umferðarslysum og flutningi slasaðra á sjúkrahús.      

Þeir sem koma að slysum sjá glöggt hversu miklu máli skiptir að öryggisbúnaður sé rétt notaður. Öryggisbelti séu spennt, hnakkapúðar í réttri hæð, börn í stólum sem hæfir þeirra stærð og þyngd, stólarnir vísi í rétta átt, séu á réttum stað og vel festir.

Við stýrum ekki samferðamönnum okkar í umferðinni og fæst okkar hafa á sínu valdi að taka ákvarðanir um uppbyggingu mannvirkja. Við getum hinsvegar verið virk í umræðunni, og gætt að eigin öryggi og þeirra sem nálægt okkur eru.

Upplýsingar um öryggisbúnað í bílum og fleiri hagnýta þætti sem snerta vegferð ökutækja má m.a. finna á síðum Samgöngustofu og Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar í Vík