Vatn sem verkjameðferð í fæðingu

Bað hefur verkjastillandi áhrif á flestar fæðandi konur, vegna þeirrar slökunar sem vatn veitir.  Þegar við leggjumst í bað fyllumst við vellíðan, hreyfingar okkar verða léttari, og streita minnkar.Þegar við finnum til sársauka, losar líkaminn efni ( t.d. endorfín ) sem eru verkjadeyfandi.   Streituhormónar hamla hins vegar losun þessara efna, þannig að áhyggjur og hræðsla auka sársauka, en sátt við ástandið minnkar hann.  Þannig virkar baðið, okkar eigin verkjadeyfing nær að virka. Endorphínin virka á svipaðan hátt og ópíumskyld lyf.  Þau virka þannig að sársauki skynjast sem ómerkilegt smáatriði sem ekki er vert að veita athygli.  Við verðum sljó og fjarlæg og öndunin slævist. Verkjalyf sem annars eru notuð í fæðingu, fara yfir fylgju til barns og geta því valdið öndunarslævingu hjá nýfæddu barni ef móðirin hefur fengið slíkt lyf skömmu fyrir fæðinguna.Í endorphín“rús“ verður sársaukaþröskuldurinn hærri og við þolum miklu meira álag en venjulega, þetta þekkir margt íþróttafólk.  Við verðum fjarlæg eða innhverf, en engin öndunarslæving verður, ekki heldur hjá barninu.Í hvorugu tilfellinu (verkjalyf eða endorphin líkamans) hverfur allur sársauki, en meiri slökun næst milli hríða og í hríðum.  Við gefum frekar eftir og leyfum líkamanum að vinna þessa feikna vinnu í friði án þess að hugurinn berjist á móti.
 
Streituhormónarnir draga líka úr losun hríðahormónsins, þannig að þegar streita minnkar, verða hríðarnar kröftugri og gera meira gagn, auk þess sem hríðahormónið sjálft er róandi.Þess vegna er allt að vinna með því að slaka á og ein leiðin til þess er að leggjast í volgt vatn og láta sig fljóta.  Baðið hefur mest áhrif fyrstu klukkustundina, og þess vegna getur verið klókt að bíða með að fara í vatnið, t.d. þar til útvíkkunin er orðin 5 cm eða meira.  Láttu samt þína eigin tilfinningu ráða, við setjum þér engar reglur.  Sumum hentar vel að fara fyrr í vatnið.Hlustað er eftir fósturhljóðum nokkuð oft meðan kona er í baðinu og ef eitthvað virðist óeðlilegt, er hún beðin um að koma upp úr til að hægt sé að taka hjartsláttarrit.  Ljósmóðirin tekur auk þess hjartsláttarrit þegar hún telur ástæðu til þess.