Varanleg vistun eða ekki – hvað er það sem ræður ?

Unnur ÞormóðsdóttirFærni- og heilsumatsnefnd er nefnd sem sker úr um það hvort einstaklingur sem sækir um varanlega vistun í hjúkrunarrými / dvalarrými eða hvíldarrými fær mat í slíkt úrræði.

Nefndin er skipuð af heilbrigðisráðherra og í henni sitja hjúkrunarfræðingur, læknir og félagsráðgjafi. Nefndin starfar samkvæmt reglugerð um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma nr. 466/2012.

Forsenda fyrir mati í varanlega vistun er að umsókn sem undirrituð hefur verið af umsækjanda liggi fyrir. Einungis er hægt að sækja um ef félagleg heimaþjónusta, heimahjúkrun og önnur úrræði og aðstoð sem á að styðja við búsetu í heimahúsi er fullreynd. Ekki er hægt að eiga umsókn til „öryggis“ heldur á umsækjandi að vera tilbúinn að fara inn í rými þegar honum býðst það. Umsækjandi ræður á hvaða hjúkrunarheimili hann vill flytja og sækir aðeins um það eða þau heimili sem hann getur hugsað sér að eiga búsetu á. Hafa ber í huga að leyfilegt er að sækja um hvaða heimili sem er, hvar sem er á landinu.

Hafi einstaklingur orðið bráðveikur er fyrst hægt að meta hann þegar veikindin eru um garð gengin og endurhæfingu er lokið.

Umsókn um hvíldarrými lítur sömu forsendum og varanleg vistun en þó er hægt að sækja um hvíldarrými til að hvíla aðstandendur sem sinna öldruðum einstaklingi heima.

Hvíldarrýmin eru inni á hjúkrunardeildum og eru ætluð einstaklingum sem þiggja heimaþjónustu og eru hluti af því að gera fólki kleift að vera heima eins lengi og kostur er. Hvíldarrými eru ekki hugsuð sem úrræði til að losa sjúkrahúsin við fólk sem er í virkri meðferð svo sem endurhæfingu eftir brot. Undantekning á því eru svokölluð endurhæfingarhvíldarrými en slík rými eru ekki til í heilbrigðisumdæmi Suðurlands. Hvíldarrýmin sem hér eru, eru fyrst og fremst til að auðvelda fólki lengri búsetu heima og styðja heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu.

Þegar nefndinni berst undirrituð umsókn um varanlega vistun eða hvíldarrými þá er kallað eftir gögnum frá heimahjúkrun, heimilislækni, félagsþjónustu og öðrum þeim fagaðilum sem koma að umönnun umsækjanda.

Mat nefndar byggist algjörlega á þeim upplýsingum sem koma frá því fagfólki sem sinnir umsækjanda.

Heilbrigðisumdæmi Suðurlands

10

 

 

 

 

 

 

Símatími formanns nefndar er alla þriðjudaga frá kl 11 til 12 og er hægt að skrá sig í síma 432-2000.

 

 

f.h. Færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis Suðurlands

Unnur Þormóðsdóttir

Formaður Færni- og heilsumatsnefndar