Útvíkkunarstig

Rólegt stig útvíkkunar:
Útvíkkun legháls frá 0sm til 5sm. Útvíkkun er hæg, hríðir u.þ.b. 1 mín. langar og geta verið nokkuð óreglulegar en styttist jafnt og þétt á milli.Þetta er tíminn til að slaka á, hvílast ef konan er þreytt, því svefnlaus nótt kann að vera framundan. Gott er að borða á meðan konan hefur lyst, því fæðing útheimtir heilmikla orku. T.d. væri vel til fundið að leiða hugann frá hríðunum yfir videói og pizzu, áður en hríðirnar verða of sterkar. Pabbarnir mega heldur ekki gleyma að hugsa um sig, því þeir eiga líka mikið verk fyrir höndum.Rétti tíminn til að fara upp á sjúkrahús ( ef fæðingin á að verða á sjúkrahúsi) er þegar þið haldið að ykkur líði betur með að vera þar. Hægt er að fara og hitta ljósmóður til að meta hvort fæðing sé hafin og hversu langt á veg hún er komin og fara svo heim aftur ef þið viljið. Tíminn er lengi að líða meðan maður bíður á sjúkrahúsi, svo verið heima eins lengi og þið treystið ykkur til.

Virkt stig útvíkkunar:
Útvíkkun 5 cm til 10cm. Útvíkkun hraðari, kröftugri hríðir sem standa yfir í u.þ.b. 1 1/2 mín á 2-3 mín fresti. Ekki er óalgengt að finna fyrir ógleði, þá er ráð að nudda ógleðipunktinn sem er á innanverðum úlnliðnum, 2-3 fingurbreiddir ofan við úlnlið, hann virkar oftar en ekki. Konan þarf líka að drekka vel og eru svalandi og orkuríkir drykkir ( án örfandi efna sem gætu aukið adrenalínið úr hófi) mjög heppilegir. Á þessu stigi byrjar konan oft að tala um þreytu sem er byrjun á endorphinrúsi. Hún þarf að slaka á milli hríðanna og einbeita sér að öndun og slökun í hríðunum. Styðjandi framkoma makans eða þeirra sem aðstoða hana í fæðingunni, eykur enn á framleiðslu fæðingarhormónanna og hvetur fæðinguna. Verið því ófeimin við að tjá væntumþykju og ást og látið eins og þið séuð ein í heiminum. Á þessum tíma er konan oft í eigin heimi og þarf gott næði í honum.Síðustu sentimetrar útvíkkunarinnar eru erfiðastir en þá er jafnframt svo stutt eftir af fæðingunni. Konan finnur ógurlegan kraft og því fyrr sem hún steypir sér út í og gefur sig fæðingunni á vald, því betra. Konan verður oft eirðarlaus og það er oft merki um að útvíkkuninni fari að ljúka, og með eirðarleysinu fær konan aukinn kraft til að rembast og ljúka fæðingunni. Þegar rembingstilfinning fer að láta á sér kræla (svipuð tilfinningu um að þurfa að hafa hægðir) er útvíkkun líklega lokið.


Rembingsstig:
Rembingsstig hefst þegar útvíkkun er lokið. Konan finnur fyrir rembingsþörf og hríðirnar breytast frá því að leiða aftur í bak og fram í kvið, yfir í þrýsting niður á endaþarminn og kynfærin, og eykst þessi þrýstingur stöðugt.Þegar konan getur ekki annað en hlýtt rembingsþörfinni, getur hún byrjað að rembast eins og henni finnst hún þurfa. Best er að konan rembist eftir eigin þörfum sem eru oft margir stuttir rembingar í hverri hríð, í stað langra rembinga sem þreyta konuna og minnka súrefnisflæði til barnsins ( Ameríska leiðin sem sést í bíómyndum ).Mikilvægt er að konan sé í þeirri stellingu sem henni finnst best, eins og hún gerði á útvíkkunarstiginu. Gott er að skipta um stellingar við að rembast, því þannig mjakast kollur barnsins neðar í grindina.Þegar kollur barnsins fer að þrýsta á spöngina heldur ljósmóðirin gjarnan við spöngina og endaþarminn, því trú er á því að það geti hjálpað til við að halda spönginni heilli en rannsóknir hafa hvorki getað afsannað það né sannað. Oft biður ljósmóðirin konuna um að halda aftur af rembingnum og anda grunnt og hratt þegar kollurinn er að fæðast. Það gerir hún til að hann fæðist sem hægast og spöngin fái tíma til að teygjast og gefa eftir án þess að rifna.Þegar kollurinn er fæddur, er mesta erfiðið búið. Barnið fæðist allt, jafnvel ekki fyrr en í næstu hríð og fer í fang móður sinnar.Barnið er allt að því fjólublátt að lit þegar það fæðist, en verður bleikt þegar það byrjar að anda, innan við mínútu frá fæðingu.Þetta rembingsstig tekur oft 1 til 2 klst. hjá konum sem eru að fæða í fyrsta sinn, en styttri tíma hjá þeim sem hafa fætt áður.


Fylgjufæðingin:
Þetta stig hefst þegar barnið er fætt. Skilið er á milli móður og barns (þ.e. naflastrengurinn klipptur) og það er gjarnan verk föðurins. Beðið er eftir að fylgjan losni frá legveggnum og þá fæðist hún. Þetta tekur oftast 5 til 15 mín. en það getur tekið mun lengri tíma, sem kemur ekki að sök, svo lengi sem ekki blæðir á meðan.Þegar fylgjan er að losna, finnur konan fyrir samdrætti og þarf hún þá að rembast til þess að fylgjan fæðist. Konan finnur lítið fyrir að fæða fylgjuna sem er lík lifur, mjúk og u.þ.b. 5-600g að þyngd.Eftir fylgjufæðinguna skoðar ljósmóðirin kynfæri konunnar og saumar ef þess þarf, en staðdeyfir fyrst, svo hún ætti ekki að finna fyrir því.