Útifundur í blíðunni

Starfsfólk HSu fundaði úti á svölum í góða veðrinu í gær. Þarna voru fulltrúar í rýnihóp í tengslum við verkefnið „Ráðgjafi að láni“ á vegum Fræðslusetursins Starfsmennt þar sem m.a. er unnin greining á fræðsluþörfum fyrir 5 heilbrigðisstofnanir með áherslu á ófaglærða starfsmenn.

Tilgangurinn er að gefa starfsmönnum tækifæri til að hafa áhrif á framboð fræðslu, þekkingar, starfsþjálfun og högun þeirrar miðlunar. Leitað er til fulltrúa frá nokkrum starfshópum til að manna tvo ca. 10 manna rýnihópa (Focus group). Á innan við 2ja klst. fundi hvors rýnihóps kastar hópurinn fram hugmyndum, sem síðan verða dregnar saman eftir mikilvægi og lagðar fram tillögur að því með hvaða hætti fræðslu eða þekkingar gæti verið aflað.


Mikilvægi sí- og endurmenntunar hefur farið vaxandi. Takast þarf á við breyttar kröfur til starfa, auk þess sem jákvæðni til starfsþróunar bætir starfsöryggi og veitir aukna starfsánægju. Ábyrgð starfsmannsins á sinni starfsþróun er skýr og hlutverk fyrirtækja og stofnana er að skapa umhverfið. Í rýnihópunum fá starfsmenn aukin tækifæri til að hafa áhrif á starfsumhverfi og þróun síns starfshóps.


Til undirbúnings er gott að velta almennt fyrir sér:
Hvaða þjálfun og fræðsla hefur verið nýtt á síðustu 12 mánuðum?
Hvaða þjálfun og fræðsla er núna hafin eða framundan?
Tækifærin til að þróast í starfi. Hvað vantar í framboð þjálfun, menntun og fræðslu, ef horft er til 3ja ára?
Leiðir til að sækja / miðla þekkingu, færni (námskeið, starfsþjálfun, kynnisferðir,  starfsmannafundir, sjálfsnám o.s.frv.)?
Er eitthvað sem heftir að sækja þjálfun og fræðslu? Lausnir.
Hverjir eru lykilhæfileikar ykkar í starfi og helstu styrkleikar?
Hvaða verkefnum finnst ykkur erfiðast að sinna í starfinu?
Hvaða möguleika sjáið þið á starfsþróun annarra?

Fyrir heilbrigðisstofnanir er „Ráðgjafi að láni“ Björgvin Filippusson hjá Kompás ehf.