Uppsagnir sjúkraflutningamanna dregnar til baka

HSu hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu og hagræðingu í starfssemi stofnunarinnar. Ein af þeim aðgerðum sem fyrirhugað var að ráðast í var að fækka mönnuðum sjúkrabílum á nóttunni úr 2 í 1. Í þeirri breytingu fólst að segja varð upp 4 sjúkraflutningamönnum og áttu þessar breytingar að taka gildi 1. apríl næstkomandi.

Mikil vinna stjórnenda HSu hefur farið í að finna leiðir til þess að snúa þessari þróun til baka og reyna að verja störf innan HSu með öðrum hagræðingaraðgerðum s.s með breytingu á vinnufyrirkomulagi, störfum og verksviði starfsmanna HSu.


Í tengslum við skipulagsbreytingar innan HSu og með opnun á slysa- og bráðamóttöku á Selfossi hefur framkvæmdastjórn HSu ákveðið að draga uppsagnir sjúkraflutningamanna til baka.


Sjúkraflutningamenn HSu munu í framhaldinu starfa að hluta til á hinni nýju slysa- og bráðamóttöku sem fyrirhugað er að opni í apríl ásamt því að sinna ýmsum öðrum verkefnum innan HSu.


Því verða áfram 4 sjúkraflutningamenn á vakt á 2 sjúkrabílum allan sólarhringinn á Selfossi, eins og verið hefur frá 1. júní 2008.


Ármann Höskuldsson
Yfirmaður sjúkraflutninga HSu