Uppgjör bólusetninga á suðurlandi 2013

BólusetningÍ nýju uppgjöri fyrir árið 2013 um bólusetningar barna á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, kemur í ljós að foreldrar sunnlenskra barna eru að standa sig vel í að láta bólusetja börnin sín, sé tekið mið af öllu landinu.  Mikilvægi bólusetninga er óumdeilt en þó nokkur umræða hefur verið undanfarið um að foreldrar láti ekki bólusetja börnin sín og er það miður. 

 

Grunnbólusetning kallast fyrsta bólusetningin sem barnið fær og seinni bólusetningar kallast örvunarbólusetningar, enda eru þær gerðar til að örva og viðhalda virkni grunnbólusetninga.

 

Mæting barna í grunnbólusetningu DTP (diphteria-tetanus-pertussis/barnaveiki-stífkrampi-kikhósti), Polio (mænusótt) og Hib (haemofilus influenzae af gerð b) er við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur.  Við bólusetningu árgangs 2011, við þriggja mánaða aldur, komu 274 börn í bólusetningu, en 280 börn eru upptalin í þjóðskrá, það gerir 98% þátttöku. Við fimm mánaða aldur komu 273 börn sem gerir 97% mætingu og tólf mánaða voru 254 börn bólusett sem gerir 90% þátttöku.  Töflu um landið allt má sjá hér neðar.

Tafla1 

 

 

 

 

Örvunarbólusetning var gerð á árgangi 2007 þetta árið, en hún er gerð við fjögra ára aldur á DTP (diphteria-tetanus-pertussis/barnaveiki-stífkrampi-kikhósti), þá telst fjöldi barna í bólusettningu á suðurlandi 232 börn af 264 skráðum börnum í þjóðskrá eða um 88%.  Á landinu öllu var þátttakan sú sama eða 88%.

Þegar börn ná 14 ára aldri er aftur bólusett við DTP (diphteria-tetanus-pertussis/barnaveiki-stífkrampi-kikhósti), og að þessu sinni var það árgangur 1997 sem mætti í örvunarbólusetningu. Þá voru 282 börn bólusett af 299, um 94% mæting á suðurlandi og á landinu öllu líka.

 

Grunnbólusetning við Pneumókokkum, sem er sýking sem leggst á öndunarfærin gekk einnig vel í árgangi 2011, eins og sjá má í töflu hér neðar.  Útkoman var nánast sú sama og um landið allt, einungis munaði einu prósenti við við 5 mánaða og 12 mánaða aldur, en þar var suðurland yfir landsmetaltali.

 Tafla2

 

 

 

Bólusetning við Meningókokkum C sem er heilahimnubólga er gerð á börnum við sex og átta mánaða aldur.  Árgangur 2011 kom þar mjög vel út miðað við landsmeðaltal.  Við sex mánaða aldur voru 275 börn bólusett af 280 í þjóðskrá eða um 98% og við átta mánaða aldur 259 af 280 sem er 92%.  Á landsvísu var þátttakan við sex mánaða aldur 96% og við átta mánaða aldur 91%.

 

Grunnbólusetning við MMR (measles-mumps-rubella/mislingar-hettusótt-rauðir hundar), er gerð á börnum við átján mánaða aldur.  Að þessu sinni er það árgangur 2010 sem um ræðir.  Á suðurlandi var 91% þátttaka, sama og á landsvísu, eða 230 börn af 252 börnum skráðum í þjóðskrá.

 

Örvunarbólusetning er gerð við tólf ára aldur og það er árgangur 1999 sem kom þetta árið í hana.  Þá var þátttakan undir landsmeðaltali á suðurlandi eða 92% miðað við 94% á landsvísu.  231 barn af 250 skráðum í þjóðskrá.

 

Grunnbólusetning við leghálskrabbameini, HPV (Human papilloma virus) var hafin haustið 2011 samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda. Veiran smitast auðveldlega við kynmök og um 80% stúlkna fá hana einhverntíma á ævinni. Talið er að bólusetningin gefi 70% vörn við sjúkdómnum. Bólusett er þrisvar sinnum á 6 – 12 mánaða tímabili og hefst bólusetning við tólf ára aldur. Til að fá bestu vörnina er mikilvægt að fá alla þrjá skammtana innan árs.  Þetta árið var árgangur 1999 bólusettur og má sjá mætingu á suðurlandi í töflu hér neðar.

 Tafla3

 

 

 

Þátttaka í grunnbólusetning á landsvísu var við tólf ára aldur 94%, eftir 1 mán 93% og eftir 6 mán 92%.

 

Hjá árgangi 2000 sem einnig mætti í grunnbólusetningu þetta árið, var mætingin lakari.  Við tólf ára aldur mættu á suðurlandi 131 af 143 stúlkum eða 91%.  Eftir 1 mánuð mættu 125 af sama fjölda eða um 87% og einungis 101  eftir 6 mánuði eða 70%.  Á landinu öllu var mætingin betri, við tólf ára aldur var þátttakan 93%, mánuði síðar 92% og eftir 6 mánuði 88%.

 

 

Óskar Reykdalsson

 

Framkvæmdastjóri Lækninga Hsu   

Sóttvarnarlæknir Suðurumdæmi

 

 

Samantekt: Gerður Óskarsdóttir

Heimildir:

Þórólfur Guðnason / Thorolfur Gudnason MD, PhD

Yfirlæknir / Chief of National Vaccination Program

Sóttvarnasviði / Centre for Health Security and Communicable Disease Control

Embætti landlæknis / Directorate of Health