Uppbygging á Réttargeðdeildinni á Sogni

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra heimsótti Sogn nýlega og var viðstaddur er fram fór afhending gjafar úr Kærleikssjóði Sogns. Þá tilkynnti hann að skipaður verði starfshópur til að huga að frekari uppbyggingu á réttargeðdeildinni.Ráðherra telur að öryggisgæsludeildin eigi að vera áfram á Sogni – og að stækka þurfi deildina. Hann fól Magnúsi Skúlasyni, framkvæmdastjóra HSu að kalla saman starfshópinn sem skipaður mun verða fulltrúum ráðuneytisins og HSu.
Réttargeðdeildin á Sogni hóf starfsemi árið 1992. Deildinni var í fyrstu ætlað að annast einungis ósakhæfa öryggisgæslusjúklinga en fékk formlegt umboð árið 1995 til að taka einnig til meðferðar sakhæfa sjúklinga úr hópi fanga þegar aðstæður leyfðu.
Sjúklingar sem koma á deildina eru mjög veikir og hefur ofbeldishegðun farið vaxandi. Sú þróun mun halda áfram. Þetta gerir æ meiri kröfur um fjölþætta og vandaða meðferð, þverfaglega endurhæfingu, trausta gæslu og mjög skýr mörk.