Unnur Þormóðsdóttir fékk styrk úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs Íslands

F.v. Dr. Erla S. Grétarsdóttir, sálfræðingur á Geðsviði LSH, Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöð Selfoss og meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, og Pétur Magnússon,
formaður Öldrunarráðs Íslands.

Stjórn Öldrunarráðs Íslands veitti í gær, miðvikudag, tvo rannsóknarstyrki úr styrktarsjóði ráðsins vegna rannsókna í öldrunarmálum. Öldrunarráð veitir árlega styrki til rannsókna í málaflokknum og fór afhending þeirra fram á Hrafnistu í Reykjavík.

 

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöð Selfoss og meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, hlaut styrk að upphæð 300 þúsund krónur í tengslum við meistararannsókn sína, sem snýr að mati á gæðum þjónustu heimahjúkrunar á heilsugæslustöðinni á Selfossi. Markmið rannsóknarinnar er að meta hvort fræðsla til starfsfólks heimahjúkrunar skili sér í bættri og markvissari þjónustu við skjólstæðinga.

 

Dr. Erla S. Grétarsdóttir, sálfræðingur á Geðsviði LSH, hlaut styrk að upphæð 100 þúsund krónur í tengslum við rannsókn á upplifun einstaklinga sem greinst hafa með  Alzheimers sjúkdóminn. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á aðstæður nýgreindra Alzheimers sjúklinga út frá þeirra eigin reynslu og upplifun, en eldri rannsóknir hafa jafnan byggt á mati aðstandenda og fagaðila. Reyndar verða nýstárlegar mæliaðferðir notaðar til þess að leggja mat á færni sjúklinga og líðan þeirra frá ýmsum sjónarhornum.

 

Um Rannsóknasjóð Öldrunarráðs Íslands

Sjóðurinn hefur verið starfræktur um langt skeið en aðalhvatamaður að stofnun hans var Gísli heitinn Sigurbjörnsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Grundar. Rannsóknasjóðurinn hefur það hlutverk að styðja við bakið á rannsóknum í öldrunarmálum á Íslandi auk sérstakra verkefna annarra í málaflokknum, sem stjórn sjóðsins metur til þess fallin hverju sinni.