Unnur Guðmundsdóttir stofnandi líknarsjóðs og mikill velunnari HSu fallin frá

Mynd frá 2007, við afhendingu stjórgjafarinnar úr sjóðnum.  Magnús Skúlason,framkv.stj. HSu og Unnur Guðmundsdóttir

Mynd frá 2007, við afhendingu stjórgjafarinnar úr sjóðnum. Magnús Skúlason,framkv.stj. HSu og Unnur Guðmundsdóttir

Nýverið kvaddi þennan heim heiðurskonan Unnur Guðmundsdóttir húsmóðir frá Túni í Hraungerðishreppi, á nítugasta og öðru aldursári, en hún var fædd 30. júlí 1921.  Eiginmaður hennar Hörður Þorgeirsson, húsasmíðameistari, fæddur 15. júlí 1917 á Hlemmiskeiði í Skeiðahreppi, lést í maí 2006.  Unnur og Hörður stofnuðu árið 1996 líknarsjóð. Tilgangur sjóðsins er að styrkja hvers konar líknarstarfsemi á Íslandi eftir nánari ákvörðun sjóðsstjórnar.

Stjórn Líknarsjóðsins hefur tvisvar samþykkt að gefa sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands gjöf, fyrst 80 milljónir króna og síðar 30 milljónir.  Er þetta stærsta gjöf sem stofnunin hefur fengið. Stofnaður var sérstakur styrktarsjóður við stofnunina í nafni þeirra hjóna.  Féð hefur verið notað til að efla starfsemi þess, bæta þjónustu þess við íbúa Suðurlands og til að styðja við framþróun í sjúkrahúsþjónustu.

Ráðstöfun úr sjóðnum getur verið í formi styrkja til að styðja við tiltekin verkefni eða kaup á búnaði, sem annars væri ólíklegt að stofnunin fengi fjárveitingu fyrir úr ríkissjóði. Um getur verið að ræða minni eða stærri styrki eftir því sem stjórnendur stofnunarinnar telja að geti komið stofnuninni að bestu gagni hverju sinni.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður ævinlega þakklát þessum góðhjörtuðu hjónum og stjórn sjóðsins, fyrir þessar stórgjafir til stofnunarinnar og þann góða hug sem að baki býr. Það er stofnuninni afar mikilvægt að fá svona góðan stuðning og eiga jafn sterka bakhjarla.