Undirritun samnings um nýtt hjúkrunarheimili í Árborg

Asta Stefansdottir og Kristjan Thor Juliusson Undirritun samkomulags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í dag var undirritaður samningur milli Velferðarráðuneytisins og Sveitarfélagsins Árborgar um að standa að byggingu hjúkrunarheimilis með 50 hjúkrunarrýmum fyrir íbúa Suðurlands.  Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna eru tæplega 1,4 milljarðar kr., en ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra mun greiða 84% af kostnaðinum en Sveitarfélagið  Árborg mun greiða 16% af áætluðum kostnaði.

 

Ákveðið hefur verið að hjúkrunarheimilið verði reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi. Undirritun samningsins fór fram á í garðskála hjúkrunardeildar HSU á Selfossi þar sem við blasir útsýni frá hinni væntanlegu byggingu norður yfir Ölfusánna. Undir samninginn rituðu Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum og nokkrum þingmönnum, ásamt stjórnendum á HSU. Staðsetning  heimilisins á lóð HSU liggur ekki enn fyrir en aðilar samningsins munu nú mynda starfhóp vegna verkefnis um áætlunargerð og fullnaðarhönnun heimilisins. Með vali á þessari staðsetningu skapast einstakt tækifæri til að nýta auðlindir og þekkingu á staðnum við uppbygginguna.

 

Við óskum íbúum sveitarfélaganna  í Árnessýslu innilega til hamingju með þennan áfanga og hlökkum til væntanlegs samstarfs um uppbygginguna.

 

 

Kær kveðja,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.