Undirritaður framtíðar þjónustusamningur við Þjóðgarðinn á Þingvöllum

Í byrjun júnímánaðar árið 2018 hófst samstarf milli sjúkraflutninga hjá Heilbriðgisstofnun Suðurlands (HSU) og Þjóðgarðsins þá Þingvöllum (ÞÞ).  Þá var undirritaður þjónustusamningur sem fól í sér samkomulag um tilraunaverkefni sem fólst í því að sjúkraflutningamenn HSU myndu veita öryggis- og viðbragðsþjónustu í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Tilgangur samingsins var að bæta öryggi, viðbragð og þjónustu við gesti þjóðgarðsins, þjálfa starfsmenn ÞÞ og stytta viðbragðstíma sjúkraflutninga í og við nágrenni þjóðgarðsins. Nú þegar rúmt ár er liðið frá því þetta samstarf hófs er ljóst að það hefur gengið mjög vel og mikill vilji er fyrir áframhaldandi samstarfi. Ávinningur tilraunaverkefnisins hefur skilað sér til beggja aðila með því að bæta öryggi og tryggja þjónsustu á annasömu svæði þar sem fjöldi ferðamanna fer um daglega.

 

Með þessu mikilvæga verkefni hefur skapast aukið öryggi, betri og meiri þekking og reynsla sem  gerir alla starfsmenn á Þingvöllum öruggari í starfi. Starfsmenn hjá ÞÞ hafa fengið aukna menntun þar sem nú fá allir starfsmenn tveggja daga námskeið í skyndihjálp sem er sérhannað að aðstæðum á Þingvöllum. Auk þess hefur þessi samvinna jafnframt leitt til betri þjónustu við ferðamenn. Einnig hefur þetta samstarf leitt af sér betra eftirlit gangvart ferðaþjónustunni í Silfru og nú liggur fyrir fundur með öllum ferðaþjónustuaðilum í Silfru þar sem sjúkraflutningamenn koma með tillögur að betri aðbúnaði og verklagi til að draga úr slysum. Þeir vinna einnig tillögur að betra verklagi starfsmanna þjóðgarðsins, sitja starfsmannafundi þar, þegar farið er yfir öryggismál ásamt því að leiðbeina um bættan aðbúnað fyrir skyndihjálp. Nú á haust mánuðum mun HSU síðan hafa aðkomu að gerð nýrrar öryggisáætlunar hjá þjóðgarðinum.

 

Með viðveru sjúkraflutningamanna HSU alla daga í þjóðgarðinum með vel útbúinni bifreið fyrir fyrstu viðbrögð hefur skapast aukið öryggi og viðbagðstími er styttri ef verða alvarlega atvik eða slys á svæðinu. Mörg dæmi síðasta ár hafa sýnt að viðvera sjúkraflutningamanns á staðnum hefur skilað hraðari aðkomu við bjargir í alvarlegum tilfellum. Staðsetning viðbragðsbifreiðar og sjúkraflutningamanns hefur líka leitt af sér betri þjónustu við aðra staði í nágrenninu en sjúkraflutningamaður á vakt fer iðulega í útköll á nærliggjandi stöðum utan við þjóðgarðinn.

 

Við undirrituð lýsum yfir ánægju okkar og stolti yfir árangursríkri samvinnu og að hafa náð markmiðum upphaflega samkomulagsins. Við viljum því festa þetta samstarf í sessi til framtíðar.  Af því tilefni var undirritaður framtíðar þjónustusamningur HSU við ÞÞ mánudaginn 30. september kl. 16:30 við Hakið á Þingvöllum.  Þess má til gamans geta að þetta var síðasta embættisverk Herdísar sem forstjóra HSU.

 

f.h. Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU

 

 f.h. Þjóðgarðsins á Þingvöllum

 Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður ÞÞ