Undirbúningur fyrir fæðingu

ErlabjorkSigÞegar líður á meðgönguna getur verið gott að huga að fæðingunni. Eðlileg meðgöngulengd er 37-42 vikur en óvanalegt er að fæðing hefjist á settum degi. Ágætt er að undirbúa tösku með helstu nauðsynjum nokkru fyrir fæðingu ásamt því að útbúa einskonar skemmtidagskrá eftir settan dag, svo sem bíóferðir, kaffiboð eða sundferðir.

 

Það er ekki aðeins gott að undirbúa praktíska hluti fyrir fæðingu heldur er andlegur undirbúningur er ekki síður mikilvægur. Jákvætt hugarfar og góður andlegur undirbúningur getur stuðlað að góðri fæðingarupplifun. Góð næring ásamt hreyfingu hjálpa líkama konunnar að takast á við komandi fæðingu en jafnframt er hvíld og slökun ekki síður mikilvæg. Góð tök á slökun og öndunaræfingum í fæðingu skilar gjarnan góðum árangri og því kjörið að æfa sig heima fyrir fæðinguna. Gagnlegt getur verið að heimsækja fæðingardeildina fyrir fæðingu til að skoða aðstæður en þá gefst einnig tækifæri til að ræða væntanlega fæðingu við ljósmóður. Í mæðraverndinni er einnig kjörið tækifæri að bera upp vangaveltur sem snúa að fæðingunni. 

 

Gott er að afla sér upplýsinga um eðlilegan gang fæðingar með því að sækja námskeið, lesa sér til í bókum og á vefsíðum. Reynslu frá vinkonum og fjölskyldu er ágætt að hafa til hliðsjónar en ekki skal gleyma að hver og ein upplifun er einstök og engin fæðing er eins. Því er ágætt að skoða eigin hugsanir og tilfinningar og ræða væntanlega fæðingu við einhvern nákominn. Gefst þannig tækifæri til að ræða hugmyndir og óskir varðandi komandi fæðingu, sem gagnlegt er að setja niður á blað og hafa í mæðraskránni. Þegar kemur svo að fæðingunni verður reynt  að mæta óskum og væntingum  hinna verðandi foreldra. Góður fæðingarfélagi er svo gulls ígildi sem getur hjálpað til við að gera fæðinguna eftirminnilega og jákvæða.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Erla Björk Sigurðardóttir

Ljósmóðir