Umsjónarlæknar sjúkraflutninga

Innan Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) fer fram öflugt starf sjúkraflutninga en stofnunin ber ábyrgð á öllum sjúkraflutningum um allt Suðurland. Í sjúkraflutningum starfa sjálfstæðar fagstéttir, en auk þeirra er einnig þörf á læknisfræðilegri forsjá yfir bráðaþjónustu og sjúkraflutningum vegna lyfjagjafa og sérhæfðra inngripa sem fylgja þjónustunnni.  Samkvæmt reglugerð nr. 262/2011 hafa verið skipaðir umsjónarlæknar í hverju heilbrigðisumdæmi til að fara með læknisfræðilega ábyrgð sjúkraflutninga. Oft á tíðum hefur það komið í hlut framkvæmdastjóra lækninga viðkomandi heilbrigðisstofnana að sinna þessu hlutverki, en þeir hafa á sama tíma mörg önnur ábyrgðarhlutverk og því oft lítinn tíma til að sinna þessum málaflokki. Í ljósi þessa hefur HSU ákveðið að fara af stað með tilraunaverkefni til reynslu í eitt ár en verkefnið felur í sér að vera með sérstaka umsjónarlækna sjúkraflutninga innan HSU. Jóhann Már Ævarsson og Steinþór Runólfsson stýra verkefninu og verða umsjónarlæknar á umræddu tímabili sem nær frá 15. júní 2020 til 30. júní 2021. Verkefni umsjónarlækna verður m.a. í formi þess að skerpa á og samræma skriflegar leiðbeiningar (vinnuferlar) og veita beinan stuðning. Reglulega koma upp atvik og aðstæður þar sem skriflegar leiðbeiningar ná ekki til og getur því þurft að leita eftir ráðgjöf og heimild læknis. Umsjónarlæknar verða í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra lækninga og yfirlækni bráðaþjónustu.

Þeim Steinþóri og Jóhanni Má er óskað velfarnaðar með þetta nýja hlutverk.

 

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU