Umfangsmikil hópslysaæfing á HSu

Í dag föstudaginn 29. apríl var umfangsmikil hópslysaæfing á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Æfð var móttaka 20 slasaðra einstaklinga og fyrstu viðbrögð heilbrigðisþjónustu vegna þeirra. Allir starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar fengu boð um slys og um 150 starfsmenn tóku þátt í þessari æfingu.

Viðbragðsstjórn stofnunarinnar stýrði aðgerðum og naut stuðnings frá Neyðarlínu og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Fulltrúum Slökkviliðs Árnessýslu, Lögreglunnar á Selfossi, Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínu var boðið að fylgjast með æfingunni og var það samdóma álit manna að vel hefði verið staðið að þessari æfingu.

Sama dag var fundur samráðshópa áfallahjálpar í umdæmum lögreglunnar á Selfossi, Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum haldinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands ásamt fulltrúum samráðshóps áfallahjálpar í Samhæfingarstöðinni. Í fundarlok var boðið upp á skrifborðsæfingu þar sem æfð var samhæfing áfallahjálpar vegna hópslyss í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.