Starfsmannastefna HSU

 

Inngangur.
Lykilþáttur í velgengni hverrar stofnunar er  þekking og reynsla starfsmanna. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að starfsmönnum með framsækinni starfsmannastefnu og
starfsmannastefnan á þannig að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði.
 HSu vill leitast við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma kröfur starfs og fjölskyldu eins og kostur er.

 

1. Ráðningar.

 

• Laus störf eru auglýst innan stofnunar og út á við í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.(1996 nr. 70 11. júní).
• Leitast er við að ráða hæfasta einstaklinginn sem völ er á á hverjum tíma óháð kyni, trúarbrögðum eða litarhætti.
• Starfslýsingar eru gerðar fyrir öll störf og þær uppfærðar þegar störf breytast.
• Nýir starfsmenn fái strax nægilega þjálfun sem byggir á eðli og umfangi starfs.
• Starfsmenn fái notið sveigjanlegs vinnutíma þar sem hægt er að koma því við.

 

2. Kjaramál.

 

• Lögð er áhersla á gegnsæi og samræmi á kjörum starfsfólks innan HSU. Þá skal kyn starfsmanna engin áhrif hafa á kjör þeirra og starfsmenn með sambærilega menntun njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf.
• HSU leggur áherslu á að gildandi kjarasamningum sé fylgt við ákvörðun um röðun í launaflokka og við meðhöndlun mála er varða kjara- og launamál. Enn fremur er áhersla lögð á góða samvinnu við stéttarfélög og að veita starfsmönnum greinargóðar upplýsingar um kjara – og launamál.
• Leitast er við að laun séu í samræmi við færni, viðfangsefni, ábyrgð og frammistöðu starfsmanns.

 

3. Starfsþróun og fræðsla.

 

Menntun.
Stefna stofnunarinnar er að leggja rækt við fræðslu og menntunarmál starfsfólks svo hagnýt og fræðileg þekking þess sé ætíð í samræmi við kröfur samtímans.

 

• Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum sem starfið gerir til þeirra, svo sem tæknilegrar og faglegrar þróunar enda verði viðkomandi gert kleift að sækja námskeið og/eða annarrar þjálfunar sem starfið krefst.
• HSU er kennslustofnun og leggur metnað sinn í að sinna nemum vel.
• HSU tekur þátt í og hvetur starfsmenn sína til rannsóknastarfa á sínu sviði.
• HSU vill leggja sitt af mörkum til að skapa starfsfólki starfsaðstöðu við rannsóknir.

 

Starfsmannasamtöl.
Leitast er við að  starfsmenn fái notið hæfileika sinna í starfi. Tilgangurinn með starfsmannasamtölum er að tryggja að kröfur og væntingar starfsmanna og yfirmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf.

 

• Starfsmannasamtöl eru á ábyrgð yfirmanna.  Miðað er við, að allir starfsmenn taki árlega þátt í starfsmannasamtali.
• Í starfsmannasamtölum fer fram umræða um fræðsluþörf og hvaða leiðir er hægt að fara.
• Gert er ráð fyrir að með starfsmannasamtölum  verði væntanleg starfsþróun skipulögð.
• Tilgangur með starfsþróun er að starfsmaður geti skilað verðmætari vinnu skjólstæðingi sínum og sjálfum sér til hagsbóta.

 

Starfslok.
Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður og HSU fylgir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hvað varða starfslok.
Ávallt skal starfsmanni gefinn kostur á starfslokasamtali, hvort sem starfsmaður
er að að hætta vegna nýrra starfa eða af öðrum ástæðum.

 

4. Samskipti

 

Starfsandi.

 

• Lögð er áhersla á að stuðla að góðum starfsanda og að starfsmenn sýni hver öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót
• Kynferðisleg áreitni, einelti, framkoma sem skapar vanlíðan eða óöryggi, eða önnur óviðeigandi hegðun verður ekki undir neinum kringumstæðum liðin. 
• Lögð er áhersla á mótun jákvæðs viðhorfs með markvissri fræðslu og gæðastefnu.
• Við lausn samskiptamála er höfð hliðsjón af markmiðum starfseminnar og sjónarmiðum starfsfólks.

 

 Upplýsingastreymi.

 

• Áhersla er lögð á að upplýsingastreymi sé markvisst og starfsmenn þekki réttar boðleiðir.
• Starfsmanna- og upplýsingafundir verði haldnir reglulega
• Notast verði við upplýsingatöflur sem til staðar eru á hverri deild, innra netið og tölvupóst, þar sem því verður viðkomið, til að koma skilaboðum á framfæri.

 

Trúnaður.
Fyllsta trúnaðar skal gætt varðandi persónuleg og viðkvæm mál starfsmanna,en trúnaður gagnvart samstarfsfólki, eins og sjúklingum er grundvöllur góðs samstarfs og samskipta á vinnustað.

 

5. Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi.

 

• Stuðlað verður að heilbrigðu vinnuumhverfi og að öryggi og vellíðan starfsmanna í vinnu sé tryggt.
• Óhöpp og vinnuslys sem starfsmenn verða fyrir skulu skráð.
• Leitast er við að tryggja öryggi og heilbrigði starfsmanna með forvörnum gegn sýkingum, slysum, óhöppum og álagseinkennum.
• Tryggt verður að starfsmenn eigi kost á handleiðslu og stuðningi fagmanna vegna verkefna sinna við stofnunina.

 

6. Jafnrétti.

 

• Starfsmönnum er ekki mismunað eftir kyni, þjóðerni, ætterni, kynþætti, stjórnmála- né trúarskoðunum. Tryggja skal og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna innan stofnunarinnar og má benda á lög nr. 96/2000 um jafnan rétt karla og kvenna til starfa. Lögð er áhersla á að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Öll störf eru því opin jafnt báðum kynjum.
• Við ráðningar, starfsþjálfun og endurmenntun skal kynjum ekki mismunað í tækifærum og möguleikar þeirra til starfsframa skulu jafnir, þannig að tryggt verði að hæfileikar þeirra nýtist sem best.

 

7. Siðfræði.

 

• Lögð er áhersla á að starfsfólk virði siðareglur starfsstétta, jafnframt að trúnaðar sé gætt gagnvart sjúklingum og samstarfsfólki um þeirra persónulegu mál. Sérstök lög skilgreina hvernig samskipti við sjúklinga ogstarfsmenn skuli vera (Lög um réttindi sjúklinga 1.júlí 1997 12. og      13 gr). Trúnaður gagnvart sjúklingum og samstarfsfólki er grundvöllur góðs samstarfs og samskipta á vinnustað.
• Starfsmenn skrifa undir þagnarskyldu við upphaf starfs og er það hluti af ráðningarsamningi.

 

8. Gildistími og endurskoðun.

Framkvæmdastjórn skal endurskoða starfsmannastefnuna eigi sjaldnar en þriðja hvert ár og leita þá eftir umsögnum og ábendingum starfsmanna/starfsmannaráðs.

 

September 2007.