Heilsugæsla

Heilsugæsla

 

HSu starfrækir 8 heilsugæslustöðvar á Suðurlandi, á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn, í Laugarási, á Hellu og Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri. Á öllum stöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu, bráða- og slysaþjónustu, vaktþjónustu, skólaheilsugæslu, heimahjúkrun, mæðra- og ungbarnavernd, hjúkrunarfræðiþjónustu og sálfræðiþjónustu.

 

Á heilsugæslunni er unnið fjölbreytt starf af læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Auk venjubundinna starfa heilsugæslunnar eru framkvæmdar ýmsar rannsóknir s.s hjartalínurit, beinþéttnimælingar, öndunarpróf og heyrnamælingar.

 

Móttaka sjúklinga: Móttaka lækna og hjúkrunarfræðinga er alla virka daga. Um er að ræða almenna móttöku sem sinnt er af starfsfólki sérhæfðu í heilsugæslulækningum og heilsugæsluhjúkrun.

 

Heimahjúkrun: Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða, markvissa, árangursríka og faglega heimahjúkrun, með það að markmiði að gera þeim, sem þjónustunnar njóta, kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi, heilsubrest eða öldrun. Skipulögð kvöld- og helgarþjónusta er á heilsugæslustöðvum Þorlákshafnar, Hveragerðis og Selfoss.

 

Meðgönguvernd: Markmið meðgönguverndar er að stuðla að heilbrigði móður og barns. Veita faglega umönnun, stuðning og ráðgjöf, að greina áhættuþætti og bregðast við þeim og að veita fræðslu um meðgöngu og fæðingu.

 

Ung- og smábarnavernd: Markmið ungbarnaverndar er aðfylgjast reglulega með heilsu og framförum á þroska barna, andlega, félagslega og líkamlega. Einnig að styrkja foreldra í umönnun ungbarnsins/ barnsins með ýmiskonar fræðslu og ráðgjöf.

 

Skólaheilsugæsla: Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Unnið er í náinni samvinnu við foreldra / forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Á svæði HSu eru  16 grunnskólar í umsjá skólaheilsugæslu.

 

Sérhæfð móttaka/þjónusta: Sérhæfðar móttökur eru t.d stuðningur við ofþunga, astma og lungnamóttaka, unglingamóttaka, fyrirtækjaþjónusta, starfsmannaheilsuefling, heilsueflandi heimsóknir til 75 ára og eldri, þjónusta við dvalar og hjúkrunarheimili og sérstakt samstarf við leikskóla. Á öllum heilsugæslustöðvum er tekið á móti slösuðum og bráðveikum en á Selfossi  er rekin sérstök sáramiðstöð og slysa og bráðadeild.

 

Móttaka sérfræðilækna: Barnalæknir, háls- nef og eyrnalæknir, augnlæknar, kvensjúkdómalæknir, hjartalæknir og meltingafæralæknir eru m.a. með móttöku á heilsugæslustöðvum.

 

Greiningarteymi barna: Greiningarteymi barna er samstarfsverkefni HSu, Skólaskrifstofu Suðurlands, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra  auk  sveitafélagsins Árborgar.Til teymisins er vísað málum barna frá fæðingu að 10 ára aldri þar sem grunur er um þroskafrávik.