Torfæruhjólastóll fyrir hreyfihamlaða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur fengið til afnota torfæruhjólastól sem ætlaður er hreyfihömluðum á öllu Suðurlandi. Stóllinn var keyptur fyrir fé sem safnaðist í fjársöfnun Íþróttasambands fatlaðra og 365 ljósvakamiðla en Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi hefur umsjón með útlánum á stólnum.

Stóllinn eykur til muna möguleika hreyfihamlaðra til útivistar sem hentar vel á svæðum sem ekki eru greiðfær hefðbundnum hjólastólum. Hægt að setja skíði undir framhjólið sem gerir hreyfihömluðum kleift að komast á milli staða í snjó. Með tilkomu stólsins eru skógarferðir, fjöruferðir og snjóganga leikur einn, bæði fyrir hreyfihömluð börn og fullorðna. Skipuleggjendum vettvangsferða í skólum, íþróttafélaga og tómstundafélaga er bent á möguleika stólsins. Ekkert er greitt fyrir lán á stólnum.


Tekið er við pöntunum hjá Svæðisskrifstofu máefna fatlaðra í síma 482 1922.