Tónlist fyrir lífið

Tónlist hefur lengi verið notuð í meðferðarskyni  og er mikilvæg leið til að hafa áhrif á líðan fólks.  Með tónlist er hægt að stuðla að breytingu  á hegðun og bæta líðan fólks.

Tónlist hefur góð áhrif á einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma.  Tónlistin vekur tilfinningar sem geta borið með sér minningar og tilfinningu fyrir eigin lífi og því sem manneskjan stendur fyrir. Hæfni til að hlusta á tónlist og meta hana er talið vera það sem síðasta hverfur fólki með heilabilun. Þar sem þessi færni  endist eftir að önnur færni hefur horfið, er tónlist frábær leið til að nálgast manneskjuna handan við sjúkdóminn.

Playlist for life

Playlist for life er verkefni sem stofnað var af Sally Magnusson eftir reynslu hennar af veikindum móður hennar, Mamie Baird en Sally skrifaði bókina Handan minninganna um baráttu móður sinnar við heilabilunarsjúkdóm. Sally og fjölskylda hennar tóku eftir því að tónlist hafði mikil áhrif á móður hennar. Ákveðin lög gátu hresst hana og önnur róað. Tónlistin virtist hjálpa Mamie að tengja við þá manneskju sem hún hafði verið en vegna heilabilunarinnar var hún smám saman að tapa þeirri tengingu.

Hugmyndin bak við Playlist for life verkefnið er að nýta þessa eiginleika tónlistarinnar til að ná til þeirra sem á þurfa að halda, vekja góðar tilfinningar og skapa vellíðan í óvissu sjúkdómsins. Ástvinir gera lagalista í iPod með uppáhaldslögum viðkomandi og lögum sem tengjast mismunandi viðburðum og tímabilum á lífsleiðinni. Ástæðan fyrir því að iPod er heppilegur í verkefnið er að þeir eru mjög einfaldir í notkun og á viðráðanlegu verði. Létt heyrnartól þykja þægilegri til þessara nota heldur en hátalarar, því þau hjálpa viðkomandi að útiloka annað áreyti en tónlistina.

Á Fossheimum og Ljósheimum höfum við fullan hug á því að feta þessa leið með aðstoð aðstandenda. Hægt er að fræðast meira um Playlist for life verkefnið á vefsiðunni https://www.playlistforlife.org.uk/.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Guðlaug Einarsdóttir

Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir

Deildarstjórar Fossheima og Ljósheima