Tölvusneiðmyndatæki tekið í notkun á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) er verið að taka í notkun tölvusneiðmyndatæki, sem var keypt fyrir gjafafé frá Líknarsjóði Harðar Þorgeirssonar og Unnar Guðmundsdóttur. Vinna við uppsetningu tækisins og fylgibúnaðar hófst sl. vor og í sumar hefur tækið verið reynslukeyrt og starfsfólk þjálfað. Tækið er af gerðinni General Electric Healthcare LightSpeed – 16 sneiða tölvusneiðmyndatæki fyrir allar almennar tölvusneiðmyndarannsóknir. Það hefur verið í notkun á LSH sl. sex ár.

Allt frá því að þjóðverjinn Willhelm Conrad Röntgen fann aðferð til að nota geisla til myndgreingar hafa orðið stórstígar framfarir í tækninni. Stærstu framfarirnar voru sennilega þegar farið var að nota tölvutæknina árið 1973 til að taka sneiðmyndir ,eða svo kallaðar „tomografiskar myndir“. Sendir eru geislar í gegnum sjúklinginn í ákveðnum sneiðum og tölvan myndgerir upplýsingarnar á þann hátt að læsilegar séu.


Á annað þúsund Sunnlendingar fara árlega á höfuðborgarsvæðið í slíka rannsókn og af sjúkrahúsinu eru fluttir yfir hundrað sjúklingar árlega til myndgreinningar með þessari tækni með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Með þessu tæki má því spara Sunnlendingum á annað þúsund ferðir til höfuðborgarinnar árlega. Tækið er með fullkomnari tækjum og það fullkomnasta á landsbyggðinni.


Stjórn líknarsjóðs Harðar Þorgeirssonar og Unnar Guðmundsdóttur samþykkti á árunum 2007 og 2009 að gefa sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verulega fjármuni til að efla starfsemi þess, bæta þjónustu þess við íbúa Suðurlands og til að styðja við framþróun í sjúkrahúsþjónustu. Hluti þessarar gjafar var nýttur til að kaupa framangreindan búnað og koma honum fyrir. Þessi gjöf eykur og bætir þjónustu við Sunnlendinga og aðra, sem þurfa á þjónustu HSu að halda. Hún fellur vel inn í þær breytingar, sem stjórnendur HSu hafa verið að vinna að í samráði við heilbrigðisráðuneytið um að styrkja bráðaþjónustu hér á svæðinu og efla ýmsa sérfræðiþjónustu.