Tillögur um lækkun útgjalda

Vegna hinna miklu áfalla, sem dunið hafa á fjámálakerfi landsmanna að undanförnu er nú unnið að tillögum um mikla lækkun útgjalda ríkissjóðs. Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá heilbrigðisstofnunum um 10 % lækkun útgjalda á næsta ári. Víð mótun slíkra tillagna hefur framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands haft að leiðarljósi hlutverk stofnunarinnar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og að sem minnst skerðing verði á þjónustunni. Einnig að forðast í lengstu lög uppsagnir starfsfólks. Leitað var eftir þátttöku starfsmanna í gerð tillagnanna. Fjölmargar tillögur bárust frá stjórnendum og öðru starfsfólki stofnunarinnar, sem er verið að vinna úr.

Framkvæmdastjórn HSu hefur farið vandlega yfir alla kostnaðarliði. Með ýmsum breytingum á fyrirkomulagi vakta, lækkun starfshlutfalla,tilfæringum á verkefnum og með því að segja upp ákveðnum þáttum í ráðningarsamningum starfsmanna er hægt að draga nokkuð úr útgjöldum. Ef á að ná markmiði um 10 % lækkun útgjalda verður ekki komist hjá mun sársaukafyllri aðgerðum eins og leggja niður ákveðna þjónustu.


Framkvæmdastjórn hefur sent heilbrigðisráðuneytinu tillögu um framangreinda útgjaldalækkun. Skerðing á þjónustu stofnunarinnar er ekki í samræmi við þá stefnumörkun, sem er í heilbrigðislögum og núverandi stjórnvöld hafa fylgt, að sem mest af þjónustunni verði veitt sem næst notendum þjónustunnar. Skerðing á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands veldur því, að þjónustan flyst annað og veldur íbúum á þjónustusvæðinu óhagræði og auknum kostnaði. Heilbrigðisráðuneyti hefur verið bent á, að fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs af slíkum tilflutningi þarf að vera talsverður til að réttlæta slíkan tilflutning.