Tillaga um endurbætur á húsnæði HSu á Selfossi

Á fundi með starfsfólki HSu á Selfossi í gær, fimmtudag,  voru kynntar tillögur að endurbótum á eldra húsnæði HSu á Selfossi.  Í húsnæðinu fer nú fram starfsemi sjúkrahúss, bráðamóttöku, rannsóknar- og röntgendeilda, eldhúss og annarrar stoðþjónustu.  Húsið var byggt á árunum 1972 – 1987.  Í framhaldi af því, að nýbygging HSu fyrir hjúkrunardeildir og heilsugæslu var tekin í notkun á árunum 2008 – 2010  lá fyrir, að gera þurfti endurbætur á eldra húsnæðinu.  Endurnýja þarf vatns-, skolp- og rafmagnslagnir, fjölga snyrtingum og einbýlum, ásamt því að bæta aðgengi fatlaðra.  Uppfylla þarf kröfur um vinnuaðstöðu og öryggismál.

Þróun heilbrigðisþjónustu og breyttar kröfur um aðbúnað sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks krefjast endurbóta á húsnæðinu.  Markmið endurbótanna er, að húsnæðið svari kröfum samtímans, en eigi jafnframt langa framtíð fyrir sér.  Tekið er mið af þeim viðmiðum, sem gilda um landið í heild varðandi heilbrigðisþjónustu m.t.t. íbúafjölda ofl.

Meginstarfsemi sjúkrahúsþjónustu HSu eru lyflækningar og bráðamóttaka.  Fæðingardeild og skurðstofa styðja við bráða- og sérfræðiþjónustu.  Skv. tillögunni verður gerð glæsileg aðstaða fyrir bráðamóttöku og skammtímavistun, áfram verður gert ráð fyrir 30 sjúkrarýmum, aðstaða sjúklinga, aðstandenda og starfsmanna verður stórbætt.

Byggð verður ein hæð, 3. hæð, ofan á húsið og stigahús með tæknrýmum og geymslum við þrjá enda byggingarinnar.

 Í suðurálmu 1. hæðar verður bráðamóttaka og skammtímavistun, ásamt aðkomu sjúkrabíla.  Í norðurálmu 1. hæðar verða röntgen- og rannsóknadeildir.  Báðar deildirnar fá stærra húsnæði, borðsalur starfsfólks verður fluttur á 3. hæð.  Í austurálmu verður aðgerðadeild með skurðstofu, speglunaraðstöðu, uppvöknun ofl.  Eldhús verður flutt á 3. hæð.

Á 2. hæð verður 28 rúma sjúkradeild í suður- og norðurálmu.  Í austurálmu verður aðstaða fæðingardeildar með 2 sængurkvennarúmum.  Skurðstofa og speglunareining verður flutt á 1. hæð.

Á 3. hæð verður eldhús og borðsalur í suðurálmu, skrifstofur læknaritara, lækna, hjúkrunarfræðinga ofl. í norðurálmu og yfirstjórnar í austurálmu.

Í kjallara verður starsemi  ýmissrar stoðþjónustu með svipuðum hætti og nú er.

Vinna þarf verkið í u.þ.b. fjórum áföngum til að hægt verði að veita nauðsynlega þjónustu meðan á framkvæmdum stendur.

Höfundur tillögunnar er Sigríður Magnúsdóttur, arkitekt hjá Teiknistofunni Tröð.  Að gerð tillögunnar var unnið í góðu samstarfi við stjórnendur HSu og Velferðarráðuneytið.  Tillagan er nú til frekari umfjöllunar hjá starsfólki HSu.  Gert er ráð fyrir, að athugasemdum verði skilað eigi síðar en 15. apríl nk.  Að því loknu verður verkefnið til ákvörðunar hjá Velferðarráðuneyti og öðrum stjórnvöldum.

Nákvæmt kostnaðarmat á tillögunni liggur ekki ennþá fyrir, en skv. grófu mati má gera ráð fyrir, að framkvæmdir skv. þessari tillögu kosti um 1.100 millj.kr.  Á fjárlögum áranna 2010 – 2012 hafa verið veittar um 213 m.kr. í þessa framkvæmd.