Tilkynning um ráðningu yfirmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands

25. mars 2019

 

Hermann Marinó Maggýjarson hefur verið ráðinn í stöðu yfirmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, frá 1. apríl 2019 til 5 ára.

 

Hermann Marinó Maggýjarson er fæddur árið 1977. Hann hóf störf sem sjúkraflutningamaður við Heilsugæslu Ólafsvíkur 1999. Síðan starfaði hann sem lögreglumaður á Suðurlandi og í framhaldi af því sem slökkviliðs- og neyðarflutningamaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þá tók hann við starfi sem sjúkraflutningamaður við HSU árið 2010 og gegnir í dag stöðu varðstjóra en var þar á undan staðgengill varðstjóra frá árinu 2011. Hann hefur s.l. 2 mánuði starfað tímabundið sem yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi í afleysingum.

 

Hermann Marinó hefur kennt hjá Sjúkraflutningaskólanum frá árinu 2005 og einnig unnið við kennslu í skyndihjálp. Hann býr að mikilli og víðtækri starfsreynslu á þessu sviði sjúkraflutninga eða í samtals 20 ár. Annað hvort eða bæði sem sjúkra- og atvinnuslökkviliðsmaður og sem lögregluþjónn. Hann hefur starfsmenntun sem atvinnuslökkviliðsmaður, neyðarflutningsmaður og sjúkraflutningsmaður, auk þess að hafa lokið prófi í bifreiðasmíði. Nú síðast lauk Hermann Marinó námi sem bráðatæknir (paramedic) frá National Medical Education & Training Center í Boston árið 2017.

 

Hermann Marinó hefur afar góðan bakgrunn á sviði menntunar og starfsreynslu fyrir starfið.  Hermann Marinó hefur framúrskarandi sýn á hvernig móta má skipulag sjúkraflutninga hjá HSU. Hann hefur skýra sýn á árangursríkar leiðir í rekstri og stjórnun. Jafnframt hefur hann skarpa sýn á faglegt forystuhlutverk yfirmanns sjúkraflutninga, árangursrík samskipti við samstarfsmenn og hvaða tækifæri eru til áframhaldandi uppbyggingar sjúkraflutninga hjá HSU með hagsmuni þjónustuþega að leiðarljósi í heilbrigðisumdæmi Suðurlands. 

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU