Tilkynning um ráðningu þriggja framkvæmdastjóra við nýja Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Esther Óskarsdóttir, Anna María Snorradóttir og Sigurður Hjörtur Kristjánsson

Esther Óskarsdóttir, Anna María Snorradóttir og Sigurður Hjörtur Kristjánsson

Ný Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) var stofnuð 1. október 2014 með sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands (HSSa), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja (HSVe). Sameiningin mun formlega taka gildi 1. janúar 2015. Starfstöðvar nýrrar stofnunar eru alls níu á tíu stöðum á Suðurlandi. Fjöldi starfsmanna er ríflega 500 manns og ný stofnun þjónar um 26 þúsund íbúum.

 

Fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurlands tilkynnist hér með að eftirfarandi einstaklingar hafa verið ráðnir sem framkvæmdastjórar við nýja sameinaða Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. janúar 2015.

 

Esther Óskardóttir hefur verið sett í stöðu framkvæmdastjóra fjármála við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. janúar 2015 til eins árs.

Ester er fædd árið 1949. Hún lauk námi á vegum Stjórnunarfélags Íslands árið 1985 og námi í verkefnastjórnun árið 2004 frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið námi í starfsmannastjórnun í opinberum rekstri hjá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hefur jafnframt sótt fjölmörg leiðtoga- og stjórnunarnámskeið og ýmis starfstengd námskeið hjá Endurmenntun HÍ og Fræðsluneti Suðurlands.

 

Esther hefur víðtæka reynslu og hefur átt langan og farsælan feril sem stjórnandi. Hún hóf störf árið 1982 við Heilbrigðisstofnunina Selfossi sem launafulltrúi og var síðar ráðin sem skrifstofustjóri árið 1984 við sömu stofnun. Esther gegndi stöðu framkvæmdastjóra við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi tímabundið á árinu 1999 og síðan samfellt í tvö ár frá 2002 til 2004 eða þar til Heilbrigðisstofnunin á Selfossi og heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi voru sameinaðar í eina Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2005. Esther hefur jafnframt verið staðgengill framkvæmdastjóra samhliða störfum sínum sem skrifstofustjóri.

Esther hefur sinnt ýmsum nefndar- og félagsstörfum fyrir samtök og íþróttafélög á Suðurlandi og verið gjaldkeri hjá vinafélagi Ljósheima og Fossheima frá 2004.


 

Anna María Snorradóttir hefur verið skipuð í stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. janúar 2015 til 5 ára.

Anna María er fædd árið 1958. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og M.Sc. í heilsugæsluhjúkrun frá University of Michigan, Ann Arbor árið 1987. Anna María hefur einnig lokið nokkrum námskeiðum á meistarastigi í stjórnun, rekstri og ígrundun við Háskólann á Akureyri auk þess að sækja fjölmörg styttri námskeið og ráðstefnur á sviði stjórnunar, hjúkrunar, heilsuverndar, áfallahjálpar og fleira.

Anna María hefur víðtæka starfsreynslu á sviði hjúkrunar, kennslu í hjúkrun og stjórnunar innan heilbrigðisgeirans. Á sviði stjórnunar starfaði Anna María sem hjúkrunarforstjóri heilsugæslu Selfoss frá 1999-2005. Frá árinu 2005 hefur Anna María starfað sem framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu). Þar tók hún þátt í sameiningu og uppbyggingu nýrrar stofnunar þar sem farið var í samræmingu, endurskipulagningu og breytingar til að tryggja og styrkja þjónustu á Suðurlandi. Í starfi sínu tók hún þátt í áætlanagerð, stefnumótunarvinnu, bar ábyrgð á faglegu starfi, rekstri, mannauðs- og gæðamálum. Hún fylgdi eftir frá grunni hönnun og framkvæmdum nýbyggingar fyrir hjúkrunardeildir HSu og heilsugæslu Selfoss og sá um þarfagreiningu varðandi búnað og val á honum. Eftir efnahagshrunið 2008 tók Anna María þátt í að leiða stofnunina í gegnum mikinn niðurskurð sem krafðist gríðarlegrar endurskipulagningar til að verja þjónustu á svæðinu.

 

Anna María hefur sinnt ýmsum nefndar- og félagsstörfum en hún er í vinnuhópi á vegum velferðarráðherra um innleiðingu á tillögum um þjónustustýringu á landsbyggðinni. Þá hefur hún setið í nokkrum vinnuhópum á vegum Velferðaráðuneytisins, verið fulltrúi í dómnefndum til að meta hæfni umsækjanda í lektorsstöður við HÍ auk ýmissa nefnda á vegum RKÍ.

 

 

Sigurður Hjörtur Kristjánsson hefur verið skipaður í stöðu framkvæmdastjóra lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. janúar 2015 til 5 ára.

Sigurður Hjörtur er fæddur árið 1968. Hann lauk prófi frá læknadeild Háskóla íslands árið 1993 og hlaut almennt lækningaleyfi að loknu kandídatsári haustið 1994. Stundaði sérnám á Íslandi og í Noregi og hlaut sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum árið 2000 og sérfræðiviðurkenningu í hjartalækningum árið 2005. Hann hefur sótt símenntun á ýmsum ráðstefnum á sérsviðinu.

Sigurður Hjörtur hefur víðtæka reynslu sem sérfræðilæknir í lyf- og hjartalækningum, ásamt reynslu af rannsóknum og stjórnun á sviði lækninga. Hann flutti aftur til Íslands frá Noregi árið 2001 og hóf þá störf sem yfirlæknir við lyflækningasvið Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum (HSVe). Þar starfað hann með hléum við þá stofnun. Á árunum 2009 til 2010 fékk hann ársleyfi frá HSVE og réði sig á því tímabili til starfa sem sérfræðingur við sjúkrahúsið í Whangarei á Nýja-Sjálandi. Sigurður Hjörtur hefur jafnframt verið sjálfstætt starfandi sérfræðingur á árunum 2011-2014 samhliða hlutastarfi við HSVE. Hann hefur einnig starfað við afleysingar á ýmsum sjúkrastofnunum á Íslandi og á Norðurlöndum. Frá ágústmánuði 2014 hefur Sigurður Hjörtur starfað sem framkvæmdastjóri lækninga við HSVE.

 

 

 

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands