Þvagleki á meðgöngu og eftir fæðingu

Það verða miklar breytingar á líkama kvenna og starfssemi líffæra á meðgöngu og eftir fæðingu, þ.á.m. þvagkerfinu. Eru þær breytingar taldar lífeðlisfræðilega eðlilegar og ganga til baka hjá flestum. Einnig geta þær aukið  líkur á þvagfærasýkingum. Tíðari þvaglát eru algengari að deginum til og hjá meira en helming kvenna að næturlagi. Hjá flestum ganga breytingarnar til baka eftir fæðingu. Ástæða tíðari þvagláta er líklega samspil ýmissa þátta sem stýrast mest af áhrifum þungunarhormóna t.d. aukið vökvamagn í líkama, stækkandi leg o.f.l.

þvagleka er skipt í 3 gerðir: 1. Áreynsluleki er langalgengastur á meðgöngu og eftir fæðingu  Einkenni koma  fram við hósta, hnerra, lyfta þungum hlutum, ganga upp stiga, við líkamsrækt, kynlíf og aðra líkamlega áreynslu. Við þannig aðstæður veita grindarbotnsvöðvarnir ekki nægjanlegan stuðning við blöðru og blöðruháls og hringvöðvar í þvagrásinni eru ekki færir um að veita nógu mikið viðnám til þess að halda þvaginu í blöðrunni. 2. Bráðaleki einkennist af knýjandi þvagþörf og þvagleka, sem kemur fyrir  þegar viðkomandi kemst ekki nógu fljótt á salerni. Bráðaleki verður oft vegna ofvirkrar blöðru eða truflaðra taugaboða til þvagblöðru og ósjálfráðra samdrátta í blöðru. 3.Blandaður leki er sambland af bæði áreynslu- og bráðaleka. Nákvæmar þvagfærarannsóknir er hægt að gera til aðgreina á milli tegunda þvagleka, til af fá viðeigandi meðferð.

Meðferð og fyrirbygging. Hægt er að ná árangri í 60 % tilfella þvagleka með einfaldri meðferð eins og grindarbotnsæfingum, blöðruþjálfun, lyfjum og lífsstílsbreytingum. Lífsstílsbreyting og heilsuhvatning er hluti af einfaldri meðferð. Hæfileg þyngdaraukning á meðgöngu, sem stjórnað er með réttu mararæði og skynsamlegri hreyfingu minnkar líkur á þvagleka.  Þvagleki hefur mismikil áhrif á daglegt líf  og  getur valdið skerðingu á lífsgæðum og félagslegri einangrun. Ráðgjöf og nánari upplýsingar er hægt að fá hjá ljósmæðrum / hjúkrunarfræðingum/læknum á næstu heilsugæslustöð.

 

Heimild: Samantekt af vef ljósmóðir.is

Hjálpleg vefsíða- sprengur.is

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sigurlinn Sváfnisdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir