Þreföld aukning á komufjölda ferðamanna á HSU!

Rúmlega tvöfalt fleiri ferðamenn leituðu til heilbrigðisþjónustu hér á landi í fyrra samanborið við árið 2009. Alls komu 14.543 ferðamenn á heilbrigðisstofnanir hérlendis í fyrra en þeir voru 5.914 árið 2009.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar.

Á tímabilinu má sjá að aukningin er mest á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þangað leituðu 3.256 ferðamenn í fyrra samanborið við 398 árið 2009. Fjöldi ferðamanna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Norðurlands ríflega þrefaldaðist á tímabilinu.

Heildargreiðslur erlendra ferðamanna fjórfölduðust á tímabilinu, námu rúmum 778 milljónum í fyrra samanborið við tæpar 177 milljónir 2009. Líklegt er að sú tala sé hærri en ekki bárust gögn frá tveimur stofnunum og aðeins fyrir hluta tímabilsins frá einni.