Þórusystur gáfu loftskipta dýnu

Systur í Rebekkustúkunni nr. 9 Þóru á Selfossi gáfu nýlega hjúkrunardeild HSu Ljósheimum loftskipta dýnu. Dýnur þessar eru mjög góðar til varnar legusárum og fyrir fólk sem á erfitt með að hreyfa sig í rúmi eða snúa sér.Dýnan minnkar þrýsting á svæði sem eru útsett fyrir sáramyndanir og að sögn hjúkrunarfólks er þetta algjör bylting fyrir fólk sem þarf að liggja lengi og er með viðkvæma húð og/eða blóðrás.
HSu á nú alls 3 slíkar dýnur og eru 2 í notkun á lyf- og handlæknisdeild og svo sú sem afhent var nú hjúkrunardeildinni Ljósheimum til eignar. Þetta var því kærkomin gjöf. Sendir stjórn og starfsfólk HSu þeim Þórusystrum innilegar þakkir. Afhendingin fór fram í setustofu Ljósheima þar sem boðið var uppá kaffiveitingar og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.