Þorláksmessupistill forstjóra

23. desember 2016

 

Kæra samstarfsfólk.

 

Í dag er Þorláksmessa sem haldin er í minningu Þorláks helga í Skálholti sem af páfa var útnefndur verndardýrlingur Íslands hjá kaþólsku kirkjunni. Í hugum okkar er Þorláksmessa orðin hluti af jólaundirbúningnum. Margir ljúka við að skreyta hús og híbýli og aðrir hafa þann sið að skreyta jólatréð á þessum degi. Öðrum finnst ómissandi að fá sér kæsta skötu í dag eða þjóta út um borg og bý. Á Þorláksmessukvöld í Reykjavík hefur skapast sú hefð að ganga friðargöngu niður Laugarveginn. Góðir siðir og venjur eru það sem skapa oft eftirvæntingu í aðdraganda hátíðarinnar.

 

Í aðdraganda jólanna hafa verið miklar annir hjá okkur öllum á HSU.  Það er ekki laust við það að væntingar ríki hjá mér að aðgerðir okkar ásamt skilaboðum til þar til bærra aðila muni skila sér áfram inn á næsta ár.  Því þykir mér mikilvægt að upplýsa ykkur um hvernig við höfum síðustu daga og vikur unnið að því að gera grein fyrir rekstrarstöðu HSU og fjárþörf fyrir komandi starfsár. Við þekkjum að í vor voru tillögur forstjóra og framkvæmdastjórnar HSU sendar til heilbrigðisráðherra um aðgerðir til hagræðingar. Í byrjun júní og júlí á þessu ári var gripið til hluta þessara aðgerða.  Staðan var sú að eftir fyrsta ársþriðjung þessa árs var hallinn kominn upp í um 160 millj. kr. en útkomuspá ársins hljóðar nú upp á um 170 millj. kr. halla. Það er því ljóst að aðgerðir hafa náð að halda aftur af mun stærri halla sem spár gerður ráð fyrir í lok apríl á þessu ári. Það er þakkarvert.

 

Rekstraráætlun HSU fyrir árið 2017 hefur verið skilað inn á grundvelli fjárlagafrumvarpsins með um 159 millj. kr. halla. Áætlunin er gerð á grunni rekstrar og þjónustu á þessu ári og er miðuð við óbreytta starfsemi. Í forsendum fjárlaga 2017 er gert ráð fyrir 1% raunvexti í rekstri á heilsugæslu- og sjúkrasviði HSU ásamt sama vexti fyrir hjúkrunarrými og að auki lækkun á framlagi um 8.000.000,- kr. á sjúkrasviði vegna aðhalds í útgjaldaramma ráðuneytis. Því ber að fagna að nú í fyrsta sinn er gert ráð fyrir raunvexti í starfseminni í fjárframlögum. Hins vegar hefur vöxtur í lögbundinni starfsemi og grunnþjónustu HSU á undaförnum árum verið langt umfram þetta 1%.  Raunaukning í starfsemi heilsugæslunnar nemur um 2% á ári og allt upp í  9-10% vöxt á einu ári í komum á bráðamóttöku og í sjúkraflutningum. Af framansögðu má álykta sem svo að miðað við núverandi starfsemi er stofnunin undirfjármögnuð.

 

Það er nú unnið að endurskoðun fjárlagafrumvarpsins á Alþingi og ráðuneyti og þingmenn sem til okkar hafa leitað hafa verið vandlega upplýstir um rekstrarstöðu og –horfur HSU.  Við bindum vonir við að það litla fjármagn sem vantar til að tryggja núverandi þjónustu fáist fyrir næsta ár.  Eins höfum við lagt mikla áherslu á að styrkja tækja- og eignakaup hjá stofnuninni.

 

Alltaf er hægt að gera betur í öllum rekstri, sama hversu vel er gert, og er það ófrávíkjanlegt markmið okkar á HSU að gera enn betur í rekstri þó verulegum árangri hafi verið náð við að stemma stigu við frekari hallarekstri þessa árs, með þeim aðgerðum sem gripið var til í vor og með náinni samvinnu við lykilstjórnendur og starfsmenn. Ég er vil því full vonar um að rök okkar nái eyrum fjárveitingarvaldsins, enda höfum við allt til þess að bera að halda áfram því góða og faglega starfi sem okkur ber skylda til að veita íbúum Suðurlands og öðrum þeim sem sækja okkur heim.

 

Okkur er ekkert að vanbúnaði og ég ítreka þakklæti mitt til ykkar allra fyrir eljusemi, úthald og faglegt samstarf. Það er sannur heiður að starfa með ykkur. Með Þorláksmessukveðju til ykkar allra, hvort sem þið eruð á vaktinni eða í öðrum verkefnum dagsins.

 

Gleðileg jól!

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU