Þjónustusamningur HSu Hvolsvelli og Rangárþings Eystra

Rangárþing eystra hefur undirritað þjónustusamning við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Hsu) um trúnaðarlæknis- og heilbrigðisþjónustu fyrir starfsmenn sína. Samningurinn tók gildi 1. apríl 2011.  Að sögn Guðlaugar Óskar oddvita, er samningurinn liður í heilsueflingu sem sveitarstjórn Rangárþings eystra leggur áherslu á. Mikil vakning hefur verið í þeim efnum í sveitarfélaginu og með samningnum vill Rangárþing eystra bæta aðgengi starfsmanna sinna að heilbrigðisþjónustu. Sveitarstjórn vinnur nú einnig að því að skipuleggja heilsustíg sem fyrirhugað er að komist í gagnið nú í sumar til að auka möguleika fólks til heilsuræktar utandyra.