Starfsemi sjúkraþjálfara í Vestmannaeyjum er mjög fjölbreytt en hlutverk þeirra er fyrst og fremst að
greina og meðhöndla hreyfitruflanir og orsakir þeirra hjá fólki, sem er allt frá því að vera rúmliggjandi
á legudeild í það að vera keppnisfólk í íþróttum. Þar að auki fást sjúkraþjálfarar við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu geta raskað lífi einstaklingsins. Starfsemi sjúkraþjálfara við Heilbrigðisstofnunina er í raun margþætt.
Sjúkraþjálfun við sjúkradeild
Sjúkraþjálfarar sinna endurhæfingu inniliggjandi sjúklinga á sjúkradeild HSU Vestmannaeyjum, eru
með daglega setleikfimi og sinna pöntun hjálpartækja og fara í heimilisathuganir þegar þess gerist þörf.
Sjúkraþjálfun við heilsugæslu
Einn sjúkraþjálfari starfar í hlutastarfi (5%) sem hreyfistjóri á heilsugæslunni sem sinnir
Hreyfiseðlaverkefninu en það felst í því að læknir ávísar einstaklingum í hreyfingu með eftirliti
sjúkraþjálfara þar sem hreyfing hefur samkvæmt vísindalegri reynslu getað dregið úr fjölmörgum
einkennum m.a. ýmissa hjarta- og æðasjúkdóma og andlegra sjúkdóma.
Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar
Sjúkraþjálfararnir eru þess utan sjálfstætt starfandi og taka við skjólstæðingum sem vísað er af
læknum í sjúkraþjálfun vegna hinna ýmissu vandamála. Sjúkraþjálfararnir eru einnig með fjölbreytta
þjálfunarhópa á borð við hjarta- og lungnahóp, gigtarhóp og sundleikfimishóp.
Sjúkraþjálfarar hjá HSU Vestmannaeyjum hafa reglulega sinnt vinnuvistfræðilegri ráðgjöf til fyrirtækja ásamt
því að taka gjarnan til sín sjúkraþjálfunarnema í verknámskennslu enda starfsstöðin fjölbreytt og því eftirsóknarverður námsstaður.
Þau eru einnig í samstarfi við Virk sem miðar að því hjálpa fólki að komast út á vinnumarkaðinn.
Sjúkraþjálfarar á HSU Vestmannaeyjum eru:
Anna Hulda Ingadóttir, b.sc.
Anna Ólafsdóttir, b.sc.
Elías J. Friðriksson, b.sc., ms.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, b.sc.
Kolbrún Sól Ingólfsdóttir, b.sc.
Hvernig kemst ég í sjúkraþjálfun?
Beinn sími sjúkraþjálfunar er: 432-2604. Hægt er að koma í 5 tíma til sjúkraþjálfara án þess að hafa beiðni frá lækni en nauðsynlegt er að fá beiðni ef þörf er á fleiri skiptum.