Teymisstjóri geðheilsuteymis HSU í heilbrigðisumdæmi Suðurlands

Svanhildur Inga Ólafsdóttir hefur nýlega verið ráðin í nýtt starf hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og er nú teymisstjóri geðheilsuteymis HSU í heilbrigðisumdæmi Suðurlands.  Alls bárust 7 umsóknir um starfið.

Svanhildur útskrifaðist árið 2015 með starfsréttindi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og 2018 lauk hún viðbótar námi á masterstigi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Vorið 2019 lauk hún námi í Sáttamiðlun frá Sáttamiðlaraskólanum og að auki hefur hún lokið ýmsum starfstengdum námskeiðum.

Hún hefur starfað við starfsendurhæfingu, í félagsþjónustu og í barnavernd. Síðastliðin þrjú ár rak hún fyrirtækið Velferð þar sem hún sinnti ýmsum verkefnum fyrir félagsþjónustur auk þess að sinna einstaklings-, fjölskyldu- og para/hjónameðferðum. Einnig hefur hún haldið töluvert af námskeiðum og fyrirlestrum um málefni sem snúa að fjölskyldunni.

Svanhildur er boðin velkomin í nýja starfið.