Sykursýki á meðgöngu!

111 Sigrún Kristjánsdóttir, ljósm

 

 

 

Tíðni meðgöngusykursýki fer sífellt vaxandi á Íslandi eins og víðast í hinum vestræna heimi. Spáð er mikilli aukningu á sjúkdómnum á næstu árum. Þessi aukning er ekki síst vegna aukinnar tíðni ofþyngdar og einnig vegna aukins fjölbreytileika kynþátta í vestrænu samfélagi. En konur af öðrum kynþætti en hvítum eru í aukinni hættu á að þróa með sér sykursýki á meðgöngu.

Ljóst er að ómeðhöndluð sykursýki á meðgöngu getur haft skaðleg áhrif fyrir móður og barn, má þar nefna meiri líkur á keisaraskurði, nýburagulu, axlaklemmu og fæðingu þungbura. Þess vegna er nú skimað reglubundið fyrir meðgöngusykursýki hjá konum með ákveða áhættuþætti á meðgöngu.

Þeir áhættuþættir sem lagðir eru til grundvallar við skimun eru eftirfarandi:

  • Aldur > 40 ára
  • Offita: BMI > 30
  • Meðgöngusykursýki í fyrri meðgöngu
  • Þungburi áður (þyngri en 4500 g)
  • Skert sykurþol fyrir þungun
  • Ættarsaga um sykursýki í fyrsta ættlið konu
  • Kynþáttur annar en hvítur

Við fyrstu mæðraskoðun er metið hvort áhættuþættir eru til staðar og í framhaldi af því er tekinn fastandi blóðsykur hjá konunni. Ef blóðsykurgildið er yfir ákveðnum mörkum þá greinist hún með meðgöngusykursýki. Ef gildið er undir þessum viðmiðunarmörkum þá fer konan í svo kallað sykurþolspróf við 24-28 vikna meðgöngu. Sykurþolspróf er framkvæmt þannig að konan kemur á rannsóknardeild eftir 10 tíma föstu. Mældur er fastandi blóðsykur og síðan blóðsykur eftir 1 og 2 klukkustundir, eftir að konan hefur drukkið sykurblöndu.

Ef eitt gildi er yfir mörkum þá greinist meðgöngusykursýki.

Ef kona í meðgöngu fær þessa greiningu þá fær hún tíma hjá ljósmóður til að fá kennslu á blóðsykurmæli og leiðbeiningar um mataræði. Mikilvægt er að konan stundi hreyfingu og hafi heilsusamlegt matarræði að leiðarljósi með hæfilegri kolvetnaneyslu til þess að halda blóðsykri sem næst eðlilegum gildum og minnka þannig líkur á óæskilegum fylgikvillum fyrir móður og barn.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir

Fæðingardeild HSU á Selfossi