Svefn skólabarna

Sigríður Björg IngólfsdóttirSvefn skólabarna

Svefninn er öllum mikilvægur.   Hann veitir hvíld, endurnýjar orku og gerir okkur kleift að takast á við viðfangsefni dagsins. 
Svefnþörfin er að einhverju leyti einstaklingsbundin og breytist í gegnum lífið. Yngstu skólabörnin þurfa að sofa í kringum 9 tíma á nóttu en þegar komið er á unglingsárin þá eykst svefnþörfin um u.þ.b. klukkustund á nóttu vegna aukins álags sem fylgir unglingsárunum en þá eiga sér stað miklar hormónabreytingar í líkamanum. Mikill hluti þeirra hormóna framleiðist á nóttunni og er sú framleiðsla háð góðum nætursvefni. Að sofa á daginn kemur því ekki í staðinn fyrir tapaðan nætursvefn.
Reyndin er þó sú að stór hluti unglinga styttir svefntíma sinn í stað þess að lengja hann.

Heilbrigðar svefnvenjur geta bætt svefninn og það er hlutverk foreldranna að leiðbeina börnum sínum um slíkt.

 

Nokkur svefnráð:

Hafa fastan tíma og skapa fastar venjur fyrir svefninn

Forðast stórar máltíðir rétt fyrir svefninn

Stilla hitann í herberginu þannig að hvorki verði of heitt né of kalt.

Hafa myrkur í svefnherberginu, ef það er nauðsynlegt að hafa birtu þá er hægt að hafa lítið náttljós. Óæskilegt er að börn og unglingar sitji fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna seint á kvöldin. Bæði sjónvarp og tölvuleikir örva heilann og trufla þannig svefninn

Dagleg hreyfing er góð bæði fyrir svefninn og heilsuna

Ekki er æskilegt að hafa sjónvarp eða önnur raftæki í herberginu

Það getur verið gott að lesa í bók þegar komið er upp í rúm eða hlusta á lágværa og rólega tónlist

Rannsóknir hafa sýnt að gæði og lengd nætursvefns hefur áhrif á námsgetu og minni. Í svefni fer fram upprifjun og úrvinnsla úr þeim upplýsingum sem við höfum fengið yfir daginn og þær upplýsingar festast í minninu. Einnig er svefninn nauðsynlegur fyrir ónæmiskerfið til að auka mótstöðu gegn veikindum.

Heimildir: 6h.is,   doktor.is

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sigríður Björg Ingólfsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi