Störf hjúkrunarfræðinga


Hjúkrunarfræðingar koma með einum eða öðrum hætti að flestum fjölskyldum og heimilum þeirra á einhverjum tímapunkti í lífinu.  Hvort sem um er að ræða á gleðistundum  þegar barn fæðist eða í sorg þegar einstaklingar og fjölskyldur þeirra ganga í gegnum erfið veikindi.
Störf hjúkurnarfræðinga eru margþætt og unnin með það fyrir augum að bera virðingu fyrir lífi og ákvarðanatöku einstaklingsins.  Einstaklingsmiðuð hjúkrun þar sem  hver skjólstæðingur er sérstakur og mikilvægur er höfð að leiðarljósi. Hjúkrun snýst ekki einungis um að sinna skjólstæðingum í bráðum veikindum á sjúkrahúsi heldur er stór partur starfsins falinn í fræðslu, forvörnum og heilsueflingu ýmiskonar. 

Á deildum sjúkrahúsanna er hjúkrunarfræðingurinn við rúm skjólstæðinga sinna, metur og grípur inn í ef  breyting verður á líðan og ástandi þeirra. Hann safnar upplýsingum frá skjólstæðingnum sjálfum og fjölskyldu hans til að meðferð, greining og eftirfylgni verði  eins og best verður á kosið.  Störf hjúkrunarfræðinga utan sjúkrahúsa eru margskonar og má þar meðal annars nefna ungbarnavernd, skólahjúkrun, stuðningsviðtöl, fræðslu, sárameðferð, heimahjúkrun, fjölskylduhjúkrun og heilueflandi heimsóknir til aldraðra þar sem þjónustuþörf heilu byggðanna er kortlögð.  Hjúkrunarfræðingar á landsbyggðinni eru oft einir út í héraði og geta þurft að bíða lengi eftir aðstoð læknis þegar um bráðatilfelli er að ræða.  Það gefur því auga leið að fjölhæfnin og þekkingin þarf að vera gríðarleg.  Hjúkrunarfræðingar eru vel menntuð stétt, þeir eru samviskusamir og úrræðagóðir.  Því kemur það í þeirra hlut að sjá um flókinn rekstur sjúkradeilda, heilsugæslustöðva og hjúkrunardeilda, þar sem þverfaglegt samstarf við aðrar stéttir og  stofnanir er stór þáttur.   Má segja að rekstur þessara eininga sé á við rekstur meðalstórra fyrirtækja. Hjúkrunarfræðingar eru framsæknir og metnaðarfullir, duglegir að sækja framhaldsnám og fylgjast með framþróun fagsins, allt til að geta veitt skjólstæðingum sínum bestu mögulega hjúkrun.  Þeir eru frumkvöðlar og óhræddir við að innleiða nýjungar ásamt því að takast á við ögrandi og erfið verkefni.
Hjúkrunarfræðingar eru stoltir af starfi sínu –  það er gaman að vera hjúkrunarfræðingur!

Ég skora á alla sem langar að starfa á spennandi vettvangi að ganga til liðs við okkur.


Unnur Þormóðsdóttir
Hjúkrunarstjóri, heilugæslustöð Selfoss.