Stjórnendur heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð heimsækja HSU

Herdís Gunnarsdóttir

17. maí 2017

Framkvæmdastjórn HSU tók á móti hópi stjórnenda frá Svíþjóð frá heilbrigðisumdæmi í Stokkhólmi sem voru á ferð hér á landi nú í vikunni. Heimsóknin var afar ánægjuleg og dvöldu þau hálfan dag hjá okkur á HSU.  Leiðtogi og stjórnandi hópsins er Steinunn Ásgeirsdóttir, sem er búsett í Stokkhólmi og stýrir þar stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu.  Gaman er að geta þess að Steinunn hlaut tilnefningu og var svo nýlega valin sem besti stjórnandi Svíþjóðar, bæði í einka- og opinbera geiranum.

Forstjóri HSU, Herdís Gunnarsdóttir, kynnti í upphafi þjónustu og verkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og það mikilvæga hlutverk sem HSU gegni í umdæmi Suðurlands við að veita íbúum og öðrum þjónustuþegum bestu almennu heilbrigðisþjónustu sem á hverju tíma er unnt að veita. Farið var yfir helstu verkefni og skipulag á sviði heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu, sjúkraflutninga og reksturs hjúkrunarrýma.  Kynnt voru helstu úrbóta- og umbótaverkefni í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi, s.s. fjarheilbrigðisþjónustu, teymisvinnu í heilsugæslu og uppbyggingu geðheilsuteymis.   Framkvæmdastjóri hjúkrunar, Anna María Snorradóttir,  kynnti skráningu, úrvinnslu og eftirfylgni með atvikum og óvæntum atburðum innan HSU. Mannauðsstjóri, Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, kynnti aðgerðaáætlun HSU varðandi viðbrögð gagnvart einelti og áreitni á vinnustað og rætt var um svo kallaða #meetoo aðgerðaáætlun og reynslu á HSU við að virkja viðbrögð við kvörtunum vegna áreitni. 

Mjög góðar umræður sköpuðust í hópnum og var heimsóknin afar ánægjuleg í alla staði. Í lok heimsóknarinnar skoðaði hópurinn Bráðamóttöku og Göngudeild HSU á Selfossi og endaði svo heimsóknina í Björgunarmiðstöð sjúkraflutninga HSU og Brunavarna Árnessýslu, þar sem þau fengu kynningu á skipulagi sjúkraflutninga og aðgerðarstjórnunar almannavarna á Suðurlandi.

Skömmu eftir heimsóknina var aðgerðarstjórn almannavarna á Suðurlandi virkjuð vegna hópslyss, sem sýnir nauðsyn þess að hafa öflugt og stöðugt viðbragð og samhæfingu vegna stórra atburða og hópslysa á Suðurlandi.

Við á HSU þökkum Steinunni og föruneyti hennar fyrir heimsóknina og óskum þeim alls hins best við þeirra störf.

 

https://offentligchef.com/aretsoffentligachef/

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.