Stjórnendadagar HSU

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hélt stjórnendadaga fyrir alla millistjórnendur stofnunarinnar á Natura Hótel Reykjavík dagana 23. til 24. maí 2018. Um 30 stjórnendur sóttu dagana en tilgangur slíkra daga er að styrkja liðsheildina og miðla þekkingu og fróðleik á sviði stjórnunar og rekstrar. Leitast var við að ýta undir hugmyndaauðgi, leita leiða til að nýta kraftana enn betur til að efla þjónustuna og gera stofnunina að betri vinnustað.

Til leiks mættu nokkrir frábærir fyrirlesarar með fróðleiksmola og styttri vinnustofur. Fengu stjórnendur m.a. kynningu á nýjum persónuverndarlögum sem taka gildi um þessar mundir og hvaða breytingar þau muni hafa í för með sér um meðferð persónugreinanlegra gagna hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Einnig var farið yfir mikilvægi góðra samskipta og var samskiptasáttmáli LSH var kynntur og farið yfir alla þá miklu vinnu sem þar lá að baki og góð ráð gefin verði farið í slíka vinnu á HSU.  Einnig var rætt um þrískipta ábyrgð stjórnandans við faglega stjórnun, rekstur og mannauðsmál.  Sóun og virði í heilbrigðiskerfinu var rædd og hvernig hugmyndafræði Lean getur hjálpað til við að bæta ferla við stjórnun og skipulag og komið þannig í veg fyrir sóun á tíma, fjármunum og öðrum auðlindum.  Farið var yfir áskoranir og tækifæri HSU í því umhverfi þar sem þjónustan vex gífurlega hratt og fjármagn fylgir ekki komufjölda sjúklinga. Jafnframt var kynnt niðurstaða könnunar sem gerð var meðal starfsmanna HSU um ánægju og líðan í starfi, en athygli vakti að ríflega 84% starfsmanna eru ánægðir eða mjög ánægðir í starfi hjá HSU, sem telst nokkuð gott. Stjórnendadagarnir enduðu á skemmtilegum fyrirlestri í léttari kantinum um það hvernig skapa eigi sterkari liðsheild. 

Allt frábærir fyrirlestrar sem skilja eftir fróðleik og góðar hugmyndir. Stjórnendadagarnir þóttust takast einstaklega vel, en þetta er í fimmta sinn sem þeir eru haldnir eftir sameiningu.  Við þökkum öllum þátttakendum fyrir þeirra framlag.