Skimanir og skoðanir

 
Vöxtur barna
Að fylgjast með vexti barna gefur mikilvægar upplýsingar um heilsufar og næringarástand. Vaxtalínurit er einn besti mælikvarði sem völ er á til að fylgjast með almennu heilsufari og heilbrigði barna. Mikilvægt er að hæðar- og þyngdarmæla með reglulegu millibili til að geta metið frávik á vaxtarlínuriti.
 
Þar sem vöxtur og holdafar er oft viðkvæmt efni fyrir börn og unglinga er mikilvægt að eftirfylgd sé í samráði við foreldra og framkvæmd á nærgætin hátt.
Vöxtur barna er mældur í 1., 4., 7. og 9. bekk.
Sjón
Sjóngæsla barna er mikilvægur þáttur í heilsuvernd. Sjóngallar eru nokkuð algengir meðal barna og unglinga og aukast með aldrinum. Ef ekki er gripið til viðeigandi úrræða hefur það áhrif á líðan og námshæfni nemandans.
Með sjónprófi í skóla er sjónskerpa (nærsýni) mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð.
Sjónpróf fara fram í 1.2., 4., 7. og 9. bekk.
Fróðleikspunktar um sjóngalla
Litaskyn
Eðlileg litaskynjun er nauðsynleg við ýmiskonar störf svo sem stjórnun flugvéla og skipa svo og við störf tengd litgreiningu svo sem ljósmyndun, málun og litprentun svo eitthvað sé nefnt. Með því að greina óöruggt litaskyn nemenda má með fræðslu og ráðgjöf koma í veg fyrir vanlíðan sem af því hlýst að gera sér óraunhæfar væntingar um starfsval. Gallar á litaskyni
eru algengari hjá strákur en stelpum.
Litaskyn er prófað hjá nemendum í 7. bekk.
Fróðleikspunktar um litaskyn
Heyrn
Heyrnarmælingu er ætlað að uppgötva bæði leiðslu og skyntaugatap. Því er nauðsynlegt að vísa þeim börnum á viðeigandi úrræði sem ekki standast viðmiðunarmörk á heyrnaprófi. Heyrnarskerðing getur haft áhrif á málþroska og námshæfni. Heyrnarmæling er gerð á eftirfarandi tíðnum (Hz): 500, 1000, 2000, 4000, 6000 og 8000.
Heyrnarmæling fer fram í 1. bekk.
Fróðleiksmolar um heyrnarmælingar
Veikindi og slys
Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp.
Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forrráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.
 
Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni.
Langveik börn
Mikilvægt er að skólaheilsugæslan viti af börnum sem eru með langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, svo sem sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma. Þessum börnum sinnir skólaheilsugæslan í samráði við foreldra/forráðamenn barnsins.
 
Þjónustan getur meðal annars falist í:
• Umsjón og eftirlit með umönnun barna innan skólans þegar þess er þörf.
• Vera tengiliður skólans við foreldra og meðferðaraðila þegar við á.
• Taka þátt í heilsufarseftirliti nemenda þegar meðferð krefur.
• Umsjón með lyfjagjöfum
• Útskýra fyrir starfsfólki skóla meðferð, lyfjagjöf og fleira eftir þörfum með leyfi viðkomandi foreldra.
• Fræða starfsfólk skólans, nemendur og foreldra um einstaka sjúkdóma og/eða fatlanir með leyfi viðkomandi foreldra.
• Stuðningur við barn og fjölskyldu þess.
• Stuðningur og ráðgjöf við starfsfólk skólans.