Bólusetningar

 
Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og draga úr hættu á smiti í samfélaginu.
Sjúkdómar, sem landlæknir mælir með að öll börn á Íslandi séu bólusett gegn, geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.
Eftirfarandi bólusetningar fara fram í skólaheilsugæslunni og eru samkvæmt tilmælum Landlæknis:
7. bekkur:
Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta).
Aukaverkanir geta verið roði, eymsli og bólga á stungustað og getur þá verið gott að nota kælingu á stungustað og/eða gefa væg verkjalyf (paracetamol).
Einnig getur hiti og útbrot komið fram 5-12 dögum eftir bólusetninguna.
Ný bólusetning gegn leghálskrabbameini
 
 
Í lok árs 2010 samþykkti Alþingi að veita fjármagni til HPV-bólusetningar gegn leghálskrabbameini frá og með árinu 2011 sem hluta af barnabólusetningum.
Bólusetningin er í boði fyrir stúlkur í 7. bekk.
Eldri stúlkur eiga kost á að fá bóluefnið gegn lyfseðli og með því að greiða fyrir það.
HPV (Human Papilloma Virus)
HPV er algeng veira meðal ungs fólks og smitast hún auðveldlega við kynmök. Um 80% þeirra sem stunda kynmök smitast af veirunni einhvern tímann á ævinni. Veiran hefur margar tegundir og geta sumar tegundir hennar valdið frumubreytingum í leghálsi. Í flestum tilfellum hverfur veiran úr líkamanum af sjálfu sér en ef sýkingar eru viðvarandi í leghálsinum geta þær með tímanum orsakað leghálskrabbamein.
HPV-bólusetning
HPV-bóluefnið sem bólusett er með inniheldur mótefni gegn tveimur algengustu tegundum veirunnar sem valda leghálskrabbameini. Með bólusetningu fæst um 70% vörn gegn sjúkdómnum. Bóluefnið er fyrirbyggjandi og því þarf að bólusetja stúlkurnar áður en þær hafa kynmök til að fyrirbyggja að smit geti átt sér stað. Þrátt fyrir bólusetningu er nauðsynlegt að stúlkur fari reglulega í krabbameinsleit síðar á ævinni.
Framkvæmd bólusetningar
Til að bóluefnið virki sem best þarf að bólusetja þrisvar sinnum á 6-12 mánaða tímabili og er síðasta sprautan jafnmikilvæg og sú fyrsta.
Bólusetning 1 Bólusett gegn HPV (og með annarri sprautu gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum í 7. bekk).
Bólusetning 2 Bólusett gegn HPV um það bil 1mánuði síðar
Bólusetning 3 Bólusett gegn HPV um það bil 5 mánuðum eftir bólusetningu 2.
Aukaverkanir
Algengustu aukaverkanir eru roði, þroti og eymsli á stungustað og stundum vægur hiti. Ofnæmisviðbrögð eru sjaldgæf og alvarlegar aukaverkanir eru ekki þekktar.
 
9. bekkur:
Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).
Aukaverkanir geta verið roði, eymsli og bólga á stungustað eða hitavella. Gott getur verið að nota kælingu á stungustað og/eða gefa væg verkjalyf (paracetamol).
Mikilvægt er að börn komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning á að fara fram.
Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.
Afþakki foreldrar bólusetningar fyrir börn sín þurfa þeir að tilkynna það skriflega til skólaheilsugælsunnar og slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns.
 
Nánari upplýsingar um bólusetningar barna og sjúkdóma sem bólusett er fyrir er að finna á vef Landlæknisembættisins.